145. löggjafarþing — 95. fundur,  8. apr. 2016.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

692. mál
[16:13]
Horfa

Elín Hirst (S):

Virðulegur forseti. Kæru landsmenn. Hér á landi hafa orðið alvarlegir atburðir á síðustu dögum sem hafa komið illa niður á trausti almennings til okkar stjórnmálamannanna og því er nauðsynlegt að við leggjum verk okkar í dóm kjósenda sem fyrst þannig að við virkjum lýðræðið og viðurkennum að stjórnmálaflokkarnir þurfa að endurnýja umboð sitt. Ég óttast ekki að eiga þann fund við kjósendur.

Einnig er nú þegar brýn nauðsyn á að við tökum höndum saman og sameinumst í aðgerðum til að koma í veg fyrir að hluti þjóðarinnar komist upp með það að greiða ekki sinn hlut í því sameiginlega framlagi sem við höfum komist að samkomulagi um til að halda þessu þjóðfélagi gangandi, heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu, velferðarkerfinu, samgöngukerfinu o.s.frv.

Atburðir síðustu daga hafa leitt í ljós hve mikilvægir fjölmiðlar eru í lýðræðisþjóðfélagi. Prófsteinn á það hvort lýðræðið virki er að þeir fái að starfa óáreittir en auðvitað innan siðaramma blaðamannasamtaka og um leið að þeir geri sér ljóst að þeir verða að vanda sig og koma fram af hlutlægni. Undanfarna daga hefur fólk safnast saman á Austurvelli til að mótmæla eftir að þátturinn um svokölluð Panama-skjöl var sýndur í Kastljósi. Þetta er fólk úr öllum stjórnmálaflokkum. Ríkisstjórnin brást skjótt við og forsætisráðherra sagði af sér. Enn fremur hefur ríkisstjórnin brugðist við með því að tilkynna að kosningar fari fram innan fárra mánaða. Þetta tel ég skynsamlegt.

Ég tel einnig skynsamlegt að vandað sé til verka þegar gengið er til kosninga. Ef vantrauststillaga verður samþykkt í dag verður að kjósa innan 45 daga. Í fyrsta lagi mundu slíkar kosningar trufla nauðsynlega lýðræðislega umgjörð, svigrúm og umræður sem þjóðin þarf til að velja sér forseta 25. júní. Auk þess er mjög mikilvægt fyrir stjórnmálaflokkana, miðað við það rauða spjald sem þeir hafa fengið frá kjósendum með kröfum um siðvæðingu, gagnsæi og lýðræðislega opin ferli o.s.frv., að þeir fái svigrúm og tíma til að velja fólk á framboðslista sína. Það tekur ekki langan tíma en það tekur samt tíma. Til dæmis í mínum flokki, Sjálfstæðisflokknum, sem og í öðrum flokkum tel ég mjög mikilvægt að við stöndum að vali á frambjóðendum á framboðslistum með opnum hætti, með opnum prófkjörum sem víðast en neyðumst ekki til að fara í svokallaða uppstillingu á framboðslistum vegna þess að ekki gefist tími til að halda prófkjör. Það er ekki lýðræðisleg aðferð, síst af öllu eins og staðan er núna í stjórnmálunum.

Verkefnið er fyrst og fremst að endurreisa traust á íslensk stjórnmál og einnig, eins og hæstv. utanríkisráðherra sagði hér í morgun, að lágmarka þann skaða sem orðspor Íslands hefur orðið fyrir með markvissum aðgerðum sem nú er unnið að í hennar ráðuneyti. Við þurfum til dæmis eins og Svíar og Danir að skoða bankakerfin okkar. Í ljós hefur komið að banki þar í landi stundar þar enn að koma peningum í skattaskjól fyrir viðskiptavini sína. Hafa þær upplýsingar valdið miklu fjaðrafoki sem eðlilegt er. Við þurfum þess vegna að styrkja skatteftirlit á landinu, ríkisskattstjóra og skattrannsóknarstjóra. Við þurfum að fá öll þessi mál upp á yfirborðið, við þurfum að skera upp herör gegn því að hér búi tvær þjóðir, annars vegar fólk sem stendur skil á sínu samkvæmt okkar lýðræðislega samfélagssáttmála og hins vegar þeir sem gera það ekki og vilja fá frítt far.

Það að vilja fá frítt far er í raun og veru óskiljanlegt. Hvernig stendur á því að fólk sem á nóg fé vill fá ókeypis far? Ég á erfitt með að skilja hvað fer í gegnum hugann á slíku fólki þegar það vill setja meiri byrðar á aðra og sleppa sjálft við að axla sínar byrðar.

Þau fjármálaóheilindi sem ég vil kalla það þegar menn fela peninga sína til að komast undan að greiða til samfélagsins það sem þeim ber eru mál númer eitt sem við íslenskir stjórnmálamenn og Íslendingar allir verðum að takast á við og klára. Við þurfum að sýna úthald, einbeitni o.s.frv. því að þetta mun taka tíma. Við þurfum að vanda okkur.

Mál númer tvö er að standa vörð um þann stöðugleika sem við höfum náð í efnahagslífi okkar. Ríkissjóður er rekinn með afgangi og hefur verið það allt þetta kjörtímabil. Íslendingar eru að greiða niður skuldir sínar hratt og örugglega og mun þetta bæta hag okkar allra svo um munar á komandi árum. Þennan stöðugleika og uppgang sem hér er verðum við að nota til að svara ákalli tugþúsunda manna um að endurreisa heilbrigðiskerfið hér á landi. Það er einnig forgangsmál sem þolir enga bið.

Það er stutt í kosningar. Ég vil að allir flokkar hafi svigrúm til að undirbúa sig vel þannig að við getum öll boðið fram lista sem valdir hafa verið samkvæmt lýðræðinu og á gagnsæjan og opinn hátt.