145. löggjafarþing — 95. fundur,  8. apr. 2016.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

692. mál
[16:50]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil nota tækifærið og óska hæstv. forsætisráðherra og hæstv. utanríkisráðherra til hamingju með embættin og óska þeim farsældar. Það er svolítið sérstakt að gera það um leið og verið er að ræða vantrauststillögu en þannig er málum fyrir komið og þetta er ekki fyrsta vantrauststillagan sem hefur verið flutt á Alþingi Íslendinga og verður heldur ekki sú síðasta.

Það vekur hins vegar athygli mína, þó að ég hafi ekki skoðað umræður um allar vantrauststillögur, og ég held að ég geti fullyrt að sá tónn sem hv. þm. Árni Páll Árnason sló hér í upphafi umræðunnar sé einsdæmi. Nú er ég fullkomlega ósammála hv. þingmanni um tillöguna og mun kjósa gegn henni eins og allir vita, en ég held að nálgun hv. þingmanns og tónninn sem hann sló hafi verið virðingarverður. Nú er ég ekki einn af þeim sem telja sig vera í þeirri stöðu að geta talað fyrir hönd þjóðarinnar og hef aldrei almennilega skilið það af hverju svo margir geta talað fyrir hönd þjóðarinnar. Ég þekki mína þjóð held ég alveg ágætlega, hún samanstendur af ólíkum einstaklingum með mismunandi skoðanir og þannig verður það alltaf. En ég held, virðulegi forseti, að þeir sem eru búnir að fylgjast með okkur og gagnrýna okkur séu meðal annars að gagnrýna það að hér sé of mikið af harðvítugum deilum og persónulegu hnútukasti. Ég skil hv. þm. Árna Pál Árnason þannig að hann sé að tala um að við eigum að ræða hlutina með öðrum hætti. Þar er ég sammála hv. þingmanni.

Virðulegi forseti. Ég held að það sé ekki vilji fólks almennt að þessi stofnun sé þannig að hún logi ávallt stafnanna milli í illdeilum. Ég held að það sé gerð krafa til okkar, eðlileg krafa, að við komum okkur saman um verklag þannig að við getum náð saman í mikilvægum hagsmunamálum þjóðarinnar. Hér erum við ekki að tala um stórt deilumál. Við erum að tala um nokkra mánuði til eða frá hvenær við göngum til kosninga. Ég held að það kalli ekki á mjög harðvítugar deilur þó að eðli málsins samkvæmt þurfum við að ná niðurstöðu í því máli. Ég vona að sátt verði hjá okkur um að klára mál sem augljóslega þarf að klára.

Mér finnst ekki gott ef við erum hér að tala um það sem lítið mál að afnema höftin. Hér hafa menn sagt að í raun sé ekki verið að gera það vegna þess að gert sé ráð fyrir þjóðhagsvarúðartækjum. Það er eitt af því sem við þurfum að ræða. Það er mín skoðun og það er lykilatriði hjá okkur að við verðum að hafa þjóðhagsvarúðartæki af ástæðum sem er engin ástæða til þess að fara yfir, það ætti að vera svo augljóst. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

Virðulegi forseti. Við erum í þeirri stöðu að íslensk þjóð er komin á þann stað að ef rétt er á málum haldið þá getum við greitt niður skuldir ríkisins og orðið skuldlítil eða skuldlaus þjóð á tiltölulega fáum árum. Við náðum saman um frumvarp um opinber fjármál. Hver er takturinn í því? Hvert er grunnstefið í því? Það er að hugsa til langs tíma, vera á þeim stað sem þær þjóðir sem við berum okkur saman við eru. Þær gera áætlanir til langs tíma, þar með talið, eins og í okkar tilfelli, að greiða niður skuldir. Eru aðrar þjóðir sammála í stjórnmálum? Nei. Takast menn á í stjórnmálum? Já. En þetta er ákveðinn grunnur í ríkisfjármálum. Það væri mjög sorglegt, virðulegi forseti, ef við gengjum til kosninga án þess að vera búin að ganga frá langtímaríkisfjármálaáætlun eins og við vorum öll sammála í þessum sal að við ætluðum að gera.

Heilbrigðismál og málefni ungs fólks, eru önnur mál sem við verðum að mínu áliti að gera eitthvað í áður en við göngum til kosninga. Útlendingalög eru annað. Ég held að þessi mál séu þess eðlis að ef við setjumst niður og förum yfir þau þá eigum við að geta náð saman um að klára þau. Síðan munum við eðlilega kjósa.

Ein af ástæðunum fyrir því að við erum að ræða þetta er mál sem við höfum ekki rætt á dýptina. Hvað er það? Það eru aflandsfélögin. Það er leki eftir því sem ég best veit úr fjölmiðlum úr einni skrifstofu. Það er verið að tala um að þar séu jafnvel nöfn 600 einstaklinga. Við erum búin að fá að sjá nokkra tugi. Það er búið að vinna ötullega að því, eins og hæstv. fjármálaráðherra fór í gegnum í ræðu sinni, tók að vísu bara brot af því sem hefur verið unnið að, að uppræta skattasniðgöngu og skattsvik í tengslum við aflandsfélög, en mér fyndist það vera ábyrgðarlítið, eftir að þessar upplýsingar hafa komið fram, ef við skiluðum auðu í þinginu. Mér finnst að það sé einnar messu virði að við setjumst yfir það mál. Það hefur verið sest niður í hv. nefndum af minna tilefni.

Virðulegi forseti. Þetta er mál sem við þurfum að vinna með öðrum þjóðum. Það vill nú svo til ef marka má fréttir að þetta var fyrst og fremst í gegnum banka í Lúxemborg sem er kjarnaríki Evrópusambandsins. Sá sem er núna forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins var forsætisráðherra Lúxemborgar í mörg ár. Við tökum nær allt reglugerðarverk okkar um fjármálamarkaðinn frá Evrópusambandinu. Þannig að þar þurfum við að líta til hvað við viljum gera í þessum málum.

Aðeins, virðulegi forseti, í lokin út af trúverðugleika, kosningum og stöðugt stjórnarfar. Ég vil aðeins ræða það. Ekkert land sem við viljum bera okkur saman við er án stöðugs stjórnarfars. Öll lönd sem við viljum bera okkur saman við eru með stöðugt stjórnarfar. Ef við viljum í alvöru fara þá leið — og ég er ekki með neinum hætti að gera lítið úr mjög eðlilegum viðbrögðum almennings við þeim fréttum sem hér komu fram — en ef við ætlum að ganga þá leið að við teljum að ganga eigi til kosninga í hvert skipti sem ríkisstjórn eða einstaka stjórnmálamenn mælast með lítið fylgi í skoðanakönnunum þá erum við að tala um grundvallarbreytingu á því stjórnarfari sem við þekkjum. Eftir því sem ég best veit, virðulegi forseti, er það hvergi þannig í heiminum, alla vega ekki á þeim stöðum sem við berum okkur saman við, að það sé almenn regla. Við vitum hvernig ástandið var á síðasta kjörtímabili. Við vissum hvernig mælingarnar voru þá. Við þekkjum það úr öðrum löndum. Ég held að samkvæmt mælingum sé Obama forseti óvinsælasti forseti í sögu Bandaríkjanna. Sama með Frakklandsforseta og ýmislegt annað mætti nefna.

Ég hvet menn þegar þeir ræða þessi mál að við hugsum þetta í þessu samhengi því allt sem við gerum skapar fordæmi. Við erum ósammála um margt, við verðum ósammála um margt, en þessi grundvallaratriði verðum við að ræða af yfirvegun. Við getum ekki nálgast málið öðruvísi, virðulegi forseti. Hér erum við að tala um nokkra mánuði til eða frá hvenær við höldum kosningar. Við erum að ræða um hvort við eigum að klára mál sem ég fullyrði að í grunninn erum við öll sammála um. Það eina sem skiptir máli, virðulegi forseti, eru þjóðarhagsmunir. Þeir eru miklu stærri en við öll sem erum hér inni. Ekkert okkar er stærra en það.

Þessi vinnustaður er eðli málsins samkvæmt tímabundinn. Við verðum hér í mismunandi langan tíma. Við verðum að hafa í huga í þessu máli sem og öllum öðrum að við erum að vinna fyrir þjóðina. Það sem við gerum skapar fordæmi.