145. löggjafarþing — 96. fundur,  12. apr. 2016.

útdeiling skúffufjár ráðherra.

[14:52]
Horfa

forsætisráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Það eru auðvitað verklagsreglur í kringum allar úthlutanir í ráðuneytum. Hv. þm. mátti ekki skilja mig þannig að þegar um er að ræða þá safnliði sem voru færðir frá þinginu inn í ráðuneytin hafi fagmennska minnkað, síður en svo. Ég var aðeins að segja að færri hefðu komið að því að skoða þá hluti. Þar sem Ísland er býsna stórt land, þótt við séum ekki mörg og landið dreifbýlt, þá getur þekking á einstökum litlum verkefnum, sem skipta miklu máli ef þau hljóta lítils háttar styrk, verið meiri því fleiri sem koma að því. Það var það sem ég minntist á. Að sjálfsögðu eru verklagsreglur. Það eru einnig verklagsreglur um ráðstöfunarfé ráðherra. Þetta eru litlar upphæðir. Það er fullkomið gegnsæi og upplýst á hverjum tíma hverjir hljóta þann styrk. Ég tel því einfaldlega ekki vert að setja stór spurningarmerki við það eða velta því fyrir sér hvort það sé eitthvað óeðlilegt við slíkt fyrirkomulag.