145. löggjafarþing — 97. fundur,  13. apr. 2016.

túlkun reglna um hagsmunaskráningu þingmanna.

[15:10]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegi forseti. Ég kem upp í þennan ræðustól á eigin kostnað og vil ræða það hér að enn sé verið að starfa í þinginu án þess að fyrir liggi hvenær verði kosið. Hér var sagt í síðustu viku að það væri nauðsynlegt að núverandi ríkisstjórn héldi áfram til að ekki lamaðist allt í stjórnsýslunni og skapaðist mikið óvissuástand í stjórnmálunum. Mér heyrðist í gær á svörum frá til dæmis hv. þm. Ásmundi Einari Daðasyni í umræðum um fundarstjórn forseta að stjórnarflokkarnir væru ekki búnir að ákveða hvort kosið yrði í haust eða hvort það yrði jafnvel í vor eða hver staðan væri.

Mér finnst á störfum þingsins þessa dagana að það sé mikil óvissa og allt stopp, í raun og veru viti enginn hvaða mikilvægu mál eigi að klára. Ég velti fyrir mér, virðulegur forseti, hversu lengi það óvissuástand, sem (Forseti hringir.) ríkisstjórnin hélt áfram til að koma í veg fyrir að það skapaðist, á að vera áður en við fáum að vita hvenær á að kjósa og hvaða mál á að klára fyrir þann tíma.