145. löggjafarþing — 98. fundur,  14. apr. 2016.

tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

618. mál
[11:20]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef lýst því áður og lýsi því aftur nú við umræðu um þetta mál að ég er full efasemda um niðurgreiðslu og ríkisrekstur eins og þann sem þetta frumvarp boðar. Mig langar hins vegar að spyrja hæstv. atvinnuvegaráðherra. Að því gefnu að þetta frumvarp nái fram að ganga þá velti ég því fyrir mér hvort í þessu máli sé nógu mikið gagnsæi við endurgreiðsluna. Ég sé á heimasíðu ráðuneytisins að þar eru auðvitað listuð upp jafnóðum verkefni sem hlotið hafa endurgreiðslu á framleiðslukostnaði en það er allt í mjög grófum dráttum. Ég hef tilhneigingu til að bera þetta saman við þau verkefni sem fá sérstaka skattaívilnun með vísan til sérstakra laga þar að lútandi, en þar gera menn sérstakan samning við ríkið þar sem fram koma og eru útlistaðar mjög nákvæmlega þær ívilnanir sem menn njóta á sköttum. Það geta verið ýmsir skattar, virðisaukaskattur, tekjuskattur, fasteignagjöld, og þar fram eftir götunum. Í þessum málum er það hins vegar þannig að menn virðast bara leggja fram nótur fyrir framleiðslukostnaði. Þess vegna spyr ég ráðherrann hvers lags kostnaður þetta sé. Er þetta til dæmis kostnaður sem erlendir framleiðendur hafa af hótelgistingu hér? Er það pítsukostnaður við framleiðslu á tökustað og þar fram eftir götunum? Hvað er um að ræða og væri ekki eðlilegra að þetta kæmi fram við uppgjör, við endurgreiðslu á þessum þáttum?