145. löggjafarþing — 98. fundur,  14. apr. 2016.

tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

618. mál
[11:42]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er nú aldeilis ánægð með það ef það er svo bjart í kringum hv. þingmann að hann sjái fyrir sér að ríkissjóður sé nú þegar orðinn skuldlaus. Það er auðvitað ekki þótt það hafi gengið ákaflega vel það sem af er kjörtímabilinu að lækka skuldir ríkissjóðs. Skuldir ríkissjóðs eru þó enn fyrir hendi og er gríðarlegt verkefni á næstu missirum að koma þeim enn frekar niður svo draga megi úr vaxtakostnaði ríkissjóðs og skattgreiðenda um ókomna tíð. Það er auðvitað í þessu ljósi sem ég nefni það að menn þurfi að forgangsraða. Hv. þingmaður telur að hér sé um að ræða verkefni sem einungis sé spurning um hvort eigi að hætta eða ekki hætta. Hann er þeirrar skoðunar að það eigi ekki að hætta því.

Ég vek þá athygli á því að lög um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar tóku fyrst gildi árið 1999, þá var endurgreiðsluhlutfallið 12%. En eins og sagt er, mikill vill meira, og það fóru fram breytingar á þessu árið 2006 og endurgreiðsluhlutfallið var hækkað upp í 14% og að nýju í 20% árið 2009. Ég spyr: Hvaða ástæður liggja því að baki akkúrat núna að það þurfi að hækka það í 25% sem er langtum hærra en virðisaukaskatturinn í landinu er? Hvað segir hv. þingmaður um það?