145. löggjafarþing — 98. fundur,  14. apr. 2016.

tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

618. mál
[12:47]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég vil í upphafi, við lok þessarar umræðu, þakka fyrir afar góða og málefnalega umræðu og fagna að sjálfsögðu þeim breiða stuðningi sem við frumvarpið virðist vera á þinginu úr öllum flokkum. Ýmsar ábendingar hafa komið sem rétt er að skoða. Segja má að samhljómur hafi verið mikill en þó er einn þingmaður sem lýsti skoðun sinni og lýsti sig andvígan þessu máli og það kemur svo sem ekki á óvart. Ég ætla ekki að endurtaka það sem ég átti í orðaskiptum við hv. þingmann í andsvörum áðan. Ég er einfaldlega ósammála því viðhorfi og svo virðist sem það séu fleiri.

Mig langar að gera nokkur atriði að umtalsefni. Ýmis atriði hafa verið nefnd, til að mynda efnahagslegur ávinningur sem af málinu og af þessu kerfi hlýst. Það er alveg rétt sem fram hefur komið að við höfum gert tilraunir til að meta það eins vel og við getum, en það er margt sem er ekki hægt að setja fjárhæð við. Hv. formaður atvinnuveganefndar nefndi meðal annars landkynningarfjármuni sem við verjum frá hendi ríkisins til landkynningar og auglýsinga. Það eru um 200 milljónir á ári sem við leggjum í átakið Inspired by Iceland á móti jafn háum fjármunum frá atvinnulífinu. Við erum að fá mikið fyrir þá fjármuni. En hvað ætli tíu mínútna viðtal við Russell Crowe í spjallþætti í Bandaríkjunum fyrir framan tugi milljóna manna mundi kosta ef við þyrftum að borga fyrir það? Eða viðtal við Ben Stiller eða allar myndirnar sem hafa verið sýndar, til að mynda The Secret Life of Walter Mitty sem ólíkt mörgum öðrum stórmyndum sem hafa verið teknar hér átti að gerast á Íslandi? Við sjáum afleiddu áhrifin af því en mjög erfitt er að meta þau. En ég er algerlega sannfærð um að efnahagslegur ávinningur okkar af þessu er gríðarlegur.

En markmið laganna, eins og hér hefur líka verið rætt, er ekki síst að auka þekkingu á íslenskri menningu og náttúru, efla kvikmyndaiðnaðinn sem atvinnugrein, og þar held ég að ávinningurinn sé algerlega ómetanlegur og að við náum þeim markmiðum. Ekki má gleyma því að ekki yrðu framleiddar íslenskar myndir með íslenskri menningu í sama mæli ef ekki kæmi til sú styrking á atvinnugreininni sem meðal annars þetta endurgreiðslukerfi hefur fætt af sér með því að fá hingað til lands færustu sérfræðinga, færustu framleiðendur, bestu tæki og annað. Allt tengist þetta saman.

Ég hef heimsótt bæði framleiðslufyrirtæki í Kaliforníu í Bandaríkjunum og samtök framleiðenda, ég hef sótt ráðstefnu þar sem þeir sem hafa með höndum að staðsetja kvikmyndir og leggja til staðsetningu á kvikmyndaupptökum til framleiðslufyrirtækjanna og sýningu á þeirra vegum. Ég er algerlega sannfærð eftir þau samtöl að þessi stuðningur, og einnig nauðsyn þess að hækka stuðninginn úr 20% í 25%, er algerlega nauðsynlegur. Þetta er samkeppnisumhverfi, alþjóðlegt samkeppnisumhverfi. Ef við ætlum að halda því áfram verðum við að vera samkeppnisfær. Því er til að svara spurningunni sem hér var varpað fram um það af hverju 12% dugðu árið 1999, af hverju það dugi ekki í dag, að það er einfaldlega vegna þess að þetta umhverfi hefur breyst. Ef við ætlum að hafa þetta og ef við ætlum að ná til landsins þeim verkefnum af því tagi sem við erum að ná, þá er það þannig að við þurfum að vera samkeppnisfær.

En við þurfum alltaf að gæta að því á sama tíma að þetta sé sjálfbært. Við sem skattgreiðendur erum þrátt fyrir þessar endurgreiðslur að fá meira inn í okkar sameiginlegu sjóði og inn í efnahagslífið, við erum ekki að borga með þessu. Og þar eru öll gögn sem benda til þess.

Ég er alveg sammála því að við eigum að auka gagnsæi í þessu. Við eigum að hafa þetta þannig að allar upplýsingar liggi sem best fyrir. Frá 1. júlí munu allar endurgreiðslur sem eru yfir 70 millj. kr. verða birtar á evrópska efnahagssvæðinu samkvæmt nýrri tilskipun frá ESB eða nýjum reglum. Við getum því alveg hugsað okkur — og ég legg það aðeins í hendur nefndarinnar hvort það sé eitthvað sem við eigum að skilyrða í lögunum eða hvort við eigum að gera það í framkvæmd án beinna lagabreytinga — að leggja til að ársreikningar séu opinberir, öll þessi verkefni þurfa að skila ársreikningum og þessi fyrirtæki. Við getum hugsað okkur að við gætum tengt betur þær upplýsingar saman á heimasíðu okkar og komið því þannig betur fyrir. Það er í allra þágu að þetta kerfi virki, að farið sé að lögum. Ég veit að atvinnugreinin sjálf er mjög áfram um það og vandar sig við þetta vegna þess að það væri verst fyrir greinina sjálfa ef í ljós kæmi að þetta væri ekki allt saman í lagi. Ég veit og finn það í samtölum og samvinnu við kvikmyndageirann að mikill metnaður er þar fyrir því að passa upp á að allir þessir hlutir séu í lagi.

Mig langar aðeins nefna eitt af því að samkeppnismál voru nefnd og að þetta skekkti samkeppnisstöðu, þá sé ég ekki alveg það samhengi. Og nefnt var að hótel og aðrar atvinnugreinar sem eru ekki tengdar kvikmyndaverkefnum séu með skakka samkeppnisstöðu, þá vil ég þvert á móti lýsa þeirri skoðun minni að það eru einmitt aðrar atvinnugreinar sem hagnast á því og njóta góðs af því að slík verkefni komi hingað. Hótelin fá fleiri gesti, bílaleigurnar fá fleiri aðila sem leigja bíla. Þetta eru verðmætir viðskiptavinir. Ég heyrði af einum bifvélavirkja hér í borg sem fær gríðarleg verkefni akkúrat þessa dagana vegna þess að breyta þarf bílum fyrir það verkefni sem er núna í tökum á Akranesi. Það vill svo til að ég er einmitt að fara að heimsækja það og skoða það verkefni á eftir og hlakka til að sjá það. En þarna er bifvélavirki að njóta góðs af því að hingað koma aukin verkefni.

Ég held að þetta sé allt efnahagslega mikilvægt og líka til viðbótar því sem hér hefur verið nefnt, þ.e. menningarlegu og landkynningarsjónarmiðin. Svo verð ég að taka sérstaklega undir með hv. þm. Vilhjálmi Bjarnasyni sem lýsti þeirri skoðun sinni að þetta væri ákveðin landsbyggðarstefna. Það er algerlega þannig. Við sjáum það á verkefnum eins og því sem er núna fyrir austan við tökur á annarri þáttaröð þáttanna Fortitude. Þar hafa ferðaþjónustuaðilar á Austurlandi getað haft opið og haft mikil viðskipti og starfsemi á tíma sem annars er jafnan dauður í þeim landshluta og hefur það að sjálfsögðu gríðarleg áhrif.

Við erum eins og fram hefur komið að bæta stjórnsýsluna með það að markmiði að tryggja það í anda góðrar stjórnsýslu. Þetta kerfi er orðið umfangsmikið. Þetta eru miklir fjármunir. Þess vegna erum við að fá til færustu sérfræðinga í skattamálum hjá yfirskattanefnd til að leggja mat á það ef ágreiningur er um túlkun á skattalögum. Og með því að gera nefndina sjálfstæða er verið að opna á kæruleið ef upp skyldi rísa ágreiningur um hvort verkefni falli að lögunum varðandi það hvort vilyrði til endurgreiðslu yrðu gefin út.

Virðulegur forseti. Ég ítreka þakkir mínar til þeirra sem tekið hafa þátt í umræðunni og legg mikla áherslu á að þetta verði klárað og fagna orðum nefndarformanns hv. atvinnuveganefndar um að nefndin muni tryggja hröð og góð vinnubrögð í málinu. Það er gríðarlega mikilvægt í þessu að fyrirsjáanleiki sé til staðar. Stór verkefni eru ákveðin með margra mánaða og margra ára fyrirvara. Það má því ekki koma hiksti í þessa tímalínu. Einnig þarf að gefa Eftirlitsstofnun EFTA ráðrúm til að meta kerfið og það ferli tekur alltaf einhvern tíma. Ég fagna því sem hér hefur verið mjög áberandi, það er samhljómur um þetta verkefni, og ég treysti því að við náum að klára það fyrir þinglok.