145. löggjafarþing — 101. fundur,  19. apr. 2016.

störf þingsins.

[13:55]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Stærstu mótmæli sögunnar voru hér fyrir utan fyrir tveim vikum síðan og kallað var eftir kosningum. Það var ekki kallað eftir kosningum í haust, það var kallað eftir kosningum strax.

Fólk kallaði ekki eftir því að forsetinn héldi áfram að vernda óbreytt ástand, það kallaði einmitt eftir breytingum.

Ríkisstjórnin brást við með því að lofa kosningum í haust, samt kveður hún ekki upp úr um hvenær þær eigi að fara fram.

Það er þess vegna ekki alveg laust við að kona óttist að einhver ómöguleiki sé eina ferðina enn að skjóta sér upp í ríkisstjórninni, ómöguleiki sem gerir ríkisstjórnarflokkunum ómögulegt að standa við loforð sín.

Við sem hér sitjum þurfum að átta okkur á því að við gerum það í umboði fólksins. Þegar fólk kallar eftir kosningum af slíkum krafti sem nú er gert á að verða við því. Það ber að hafa að leiðarljósi vilja þeirra sem við störfum fyrir en ekki hvort það hentar okkur hverju og einu eða stjórnmálaflokkunum, eða herra forsetanum á Íslandi.

Virðulegur forseti þingsins sagði í fréttum í hádeginu að ekki léki vafi á því að kosningar yrðu í haust. Ég vil skora á hann, virðulegi forseti, að beita sér af öllu afli til að knýja ríkisstjórnina til að kveða upp úr um hvenær það á að vera og hvaða málefni ríkisstjórnin hyggst hafa í forgangi.

Jafnframt vil ég minna á að krafan er ekki um kosningar í haust, krafan er um kosningar strax. Krafan er um breytingar í þessu þjóðfélagi en ekki það þjóðfélag sem forseti Íslands hefur staðið vörð um undanfarið.