145. löggjafarþing — 101. fundur,  19. apr. 2016.

viðbrögð stjórnvalda við skattaskjólum.

[14:40]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Undirliggjandi tónn í þessari umræðu kemur stundum fram, um það að skattaskjól séu á einhvern hátt lögmæt eða að það séu á einhvern hátt lögmætar ástæður fyrir því að vera með félög í skattaskjólum. Þá er stutt í röksemdafærslur um það að ríki eigi að keppa í skattalöggjöf. Ég skil rökin um að keppa í skattalöggjöf, en það er eitt að keppa við önnur ríki eins og Norðurlöndin og annað að keppa við ríki eins og Bresku Jómfrúreyjarnar. Annað er mögulegt, hitt er ekki mögulegt. Við munum aldrei sigra skattaskjól í samkeppni um skattalöggjöf nema með því að verða skattaskjól. Að því gefnu að við ætlum ekki að verða skattaskjól þá geri ég ráð fyrir því að sú samkeppni sé ekki möguleg, og þá eigum við ekki að leitast eftir henni.

Við eigum miklu frekar að reyna að finna leiðir til þess að koma í veg fyrir að fólk noti þessi skattaskjól yfir höfuð, vegna þess að, eins og hv. þm. Frosti Sigurjónsson kallar þau stundum, þau eru upplýsingasvarthol og það eitt og sér er vandamál. Óháð því í hvaða tilgangi menn eru að fara með félög sín til þessara staða þá eru þessi svæði upplýsingasvarthol. Það er erfitt að fá upplýsingar þar, ef það er mögulegt yfir höfuð. Það er eitt af stóru vandamálum við þau. Það þýðir að lögmætur tilgangur eins og eins aðila sem fer þangað með starfsemi hjálpar okkur ekki í baráttunni við þetta og getur ekki gert það. Þess vegna eigum við ekkert að vera að daðra við hugmyndir um samkeppni við svona ríki eða svona löggjöf.

Það er annar undirliggjandi tónn, sem fíllinn í herberginu, að mínu mati, en það er einfaldlega trúverðugleiki ríkisstjórnarinnar. Við verðum að halda til haga viðbrögðum sem komu upp. Hér voru nú aldeilis gífuryrðin látin fjúka á hinu háa Alþingi þegar mál hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra kom upp. Þá var talað um skítaleiðangur, virðulegi forseti. Það eru ekki mín orð. Það eru orð hæstv. utanríkisráðherra um þetta mál. Skítaleiðangur, virðulegi forseti. Fyrirgefið orðbragðið, mér finnst bara mikilvægt að halda þessu til haga. Það er orðræðan sem kom upp. Sú sama ríkisstjórn á að hafa trúverðugleika til þess að takast á við þessi mál. Ég held ekki, virðulegi forseti.