145. löggjafarþing — 101. fundur,  19. apr. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[16:52]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér samgönguáætlun fyrir árin 2015–2018; það hefur verið beðið nokkuð lengi eftir henni. Eins og fram hefur komið tókst ekki að afgreiða samgönguáætlun sem var lögð fram fyrir ári og nú höfum við í höndunum það plagg sem á að marka stefnuna til næstu ára, til 2018. Því miður verð ég að lýsa miklum vonbrigðum yfir því hve rýr þessi samgönguáætlun er. Maður hefði ætlað að miðað við þær miklu tekjur sem eru af ferðamönnum — ferðamannageirinn er orðinn meira gjaldeyrisskapandi en sjávarútvegurinn í landinu — þá hefði nú verið borð fyrir báru að spýta verulega í samgöngumálin, innviðauppbyggingu í samfélaginu. Manni finnst forgangsröðunin hjá þessari ríkisstjórn með ólíkindum, að setja ekki meira fjármagn til samgöngumála heilt yfir miðað við hve brýn og mikil þörf er á því að styrkja innviði landsins og bæta vegakerfið, bæði til þess að þjóna íbúum landsins og líka til þess að mæta þeim mikla fjölda ferðamanna sem ekur um vegi landsins en víða skapa vegir virkilega slysahættu eins og komið hefur í ljós. Þess vegna verð ég í upphafi að undirstrika vonbrigði mín yfir því að ekki hafi náðst meiri fjármunir inn í það verkefni að styrkja innviði í samgöngum.

Ég hlustaði á mál hæstv. innanríkisráðherra hér áðan. Mér fannst á máli hennar að það væri verið að laga samgönguáætlun að þeim raunveruleika sem lægi fyrir, að ekki fengist meira fjármagn til þessa málaflokks. Það er auðvitað mjög dapurlegt ef baráttunni fyrir meira fjármagni í þennan málaflokk er lokið og því vísað til þingsins að menn verði að sýna það í verki í fjárlögum að menn leggi meiri fjármuni í það og skipti kökunni öðruvísi þegar fjárlög liggja fyrir. Samgönguáætlun sú sem þá lá til grundvallar gerði ráð fyrir 23 milljörðum í þennan málaflokk, en útkoman var um 20 milljarðar. Miðað við það sem lagt er upp með þá treystir maður því ekki einu sinni að fjármunir fylgi því sem gert er ráð fyrir í þessari áætlun.

Ég ætla, eins og aðrir þingmenn hér á undan mér, að skoða aðeins það svæði sem tilheyrir mínu kjördæmi, Norðvesturkjördæmi. Þar sé ég að Dýrafjarðargöngin eru inni. Auðvitað er maður ánægður með það, en maður spyr sig líka: Hve hratt verður farið í þær framkvæmdir? Verða þau ekki boðin út fyrr en á næsta ári? Þau kosta 9 milljarða. Fyrir árin 2017–2018 eru áætlaðir 5 milljarðar. Það er ekkert í hendi, eins og komið hefur fram hjá hæstv. ráðherra, fyrr en samningsbundin verkefni liggja fyrir, útboðið, og búið er að semja við viðkomandi verktaka. Á meðan það er ekki hefur hæstv. ráðherra sagt að þau verkefni væru í hættu og ekkert öruggt í þeim efnum. Maður er ekkert öruggur með framkvæmdir við Dýrafjarðargöng fyrr en útboð hefur farið fram og búið er að skrifa undir af hálfu ríkisins. Í hendur við það helst uppbygging Dynjandisheiðar og hér kemur fram að sá kostnaður eigi að vera 4,5 milljarðar. Miðað við fjármagn er næstu tvö árin reiknað með 850 millj. kr. í það verkefni. Ef áætlað er að Dýrafjarðargöngum eigi að ljúka 2019 þá verður Dynjandisheiðin ekki tilbúin á sama tíma en það helst í hendur að hægt sé að nýta þær framkvæmdir og að Dynjandisheiðin verði þannig úr garði gerð að hægt sé að nýta hana allt árið um kring.

Minnst hefur verið á framkvæmdir á sunnanverðum Vestfjörðum. Ég vona að hægt verði að fara af stað fyrr þó að allt liggi ekki endanlega fyrir varðandi veglínu í Teigsskógi og fara í þær framkvæmdir í Gufudalssveit sem eru óumdeildar og byrja á því sem fyrst og helst á þessu ári. Þarna er Bjarnarfjarðarháls inni og reiknað er með að framkvæmdum við hann ljúki á næsta ári. En Veiðileysuhálsinn, það verkefni ýtist fram í tímann. Kostnaður við hann er um 700 millj. kr. og það er ekki fyrr en 2018 sem lagðar eru 200 millj. kr. í það verkefni. Við þekkjum öll einangrun þess svæðis og það er mjög slæmt að því sé ýtt svona inn í framtíðina.

Norðvesturkjördæmi — ég held að ég fari með rétt mál, þar er mestur fjöldi kílómetra í óbundnu slitlagi. Við þekkjum uppsveitir í Borgarfirði og víðar í kjördæminu, bæði á Vestfjörðum og Norðurlandi vestra og á Vesturlandi — þar er bæði mikið um einbreiðar brýr og vegi sem ekki eru í fullri breidd og malarvegi. Mikið er rætt um að reyna að dreifa ferðamönnum um landið. Það er óásættanlegt að ekki sé lagt meira fjármagn í að flýta uppbyggingu héraðs- og tengivega og lagfæra þá vegi sem mundu verða til þess að auðveldara væri fyrir ferðaþjónustufyrirtæki að starfa og draga til sín ferðamenn inn á þetta svæði.

Tíminn flýgur áfram og ég vil aðeins koma inn á fjármagn til flugvalla. Ég er nýbúin að fá skriflegt svar frá hæstv. innanríkisráðherra um nýtingu á Ísafjarðarflugvelli og Þingeyrarflugvelli. Þingeyrarflugvöllur hefur verið skilgreindur sem varaflugvöllur fyrir Ísafjarðarflugvöll. Það kemur fram í svarinu að Þingeyrarflugvöllur hefur verið lokaður síðastliðna þrjá vetur og sumarið 2014 var aðeins lent í tvö skipti og sumarið 2015 í eitt skipti. Flugvellinum hefur verið lokað yfir vetrartímann vegna þess að þar voru skemmdir, frostsprungur í burðarlagi, og ekki hægt að lenda nema settir væru fjármunir í að laga burðarlagið á vellinum. Það kemur fram í svari hæstv. innanríkisráðherra að ekki er reiknað með að setja neina fjármuni, og það sést í þessari samgönguáætlun, í það verkefni að laga burðarlagið á Þingeyrarflugvelli svo að hægt sé að nýta hann sem varaflugvöll.

Það er talið, og það kemur fram í svarinu, að nýta hefði mátt Þingeyrarflugvöll yfir vetrartímann í 9–15% tilfella þegar ekki var hægt að lenda á Ísafjarðarflugvelli. Þetta fjársvelti er algjörlega óásættanlegt fyrir þennan fjórðung. Flugið skiptir gífurlega miklu máli og er í raun hluti af almenningssamgöngum við svæðið. Það hefur áhrif á ferðaþjónustufyrirtæki, á atvinnulífið og íbúa þessa svæðis að flugið sé jafn ótryggt og það er og ekki sé hægt að nýta Þingeyrarflugvöll þegar ekki er hægt að lenda á Ísafjarðarflugvelli. Þetta er eitthvað sem mér finnst að verði að kippa í liðinn og er algjörlega óásættanlegt. Ég vísa því til stjórnarmeirihlutans og til umhverfis- og samgöngunefndar að taka þennan lið til skoðunar, því að ekki er hægt að bjóða þessum fjórðungi upp á að flugið sé með svo ótryggum hætti sem raun ber vitni.