145. löggjafarþing — 102. fundur,  20. apr. 2016.

ákvörðun um kjördag og málaskrá.

[15:55]
Horfa

forsætisráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég held að öllum hér inni sé nauðsynlegt að skilja hver staðan er, tek undir það með hv. þingmanni. Staðan er þannig að hér er starfandi ríkisstjórn með 38 þingmanna meiri hluta eins og stjórnarandstaðan sýndi fram á á fyrsta degi. Það er starfað á grundvelli sama stjórnarsáttmála og fyrir var og unnið að þeim málum sem þar lágu fyrir og hafa verið í þinginu, einhverjir tugir sem er unnið að og mjög mörg af þeim eru mikilvæg mál sem menn hafa lagt áherslu á í þingnefndum. Það er ekkert óeðlilegt við að þingið starfi með fullkomlega eðlilegum hætti á meðan það samtal á sér stað á milli stjórnarandstöðunnar og stjórnarmeirihlutans og stjórnenda þingsins um með hvaða hætti það skýrist hvenær best er að ganga til kosninga. Það hangir augljóslega saman við það með hvaða hætti þau mál ganga fram í þinginu. Þetta höfum við sagt margoft. Það mun skýrast í samtölum annars vegar við forseta þingsins í dag og síðan við stjórnarandstöðuna á föstudaginn með hvaða hætti þessi mál ganga fram.

En mikilvægast er að allir átti sig á því að hér er starfandi ríkisstjórn með mikinn meiri hluta og starfað er á grundvelli sama stjórnarsáttmála og áfram verður unnið að þeim málum sem liggja fyrir þinginu og í nefndunum enda nægur þingtími til stefnu þangað til gengið verður til kosninga.