145. löggjafarþing — 102. fundur,  20. apr. 2016.

útlendingar.

728. mál
[18:11]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Við erum hér á einni stiklunni, ef svo má að orði komast, í framvindu þessa máls. Við viljum auðvitað sjá þetta mál verða að lögum. Ég held að það sé afar mikilvægt að það gerist í vor. Hæstv. ráðherra vísar ítrekað í löggjöfina á Norðurlöndum. Það er ekki eins og okkur í þingmannanefndinni sé löggjöfin á Norðurlöndum að öllu ókunn, við freistuðum þess að vera í góðum takti. Sá taktur upphófst ekki þegar málið kom á borð ráðherra heldur vorum við líka að glíma við samspilið við norrænu löggjöfina. Okkur var jafnframt ljóst að norræna löggjöfin er, eins og sakir standa, kvik, þ.e. hún er hreyfanleg og endurspeglar þær breytingar sem eru að verða á málaflokknum um alla Evrópu.

Í tilefni af því vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Viljum við vera í forustu að því er varðar mannúð og mannréttindi í þessum málaflokki? Eða viljum við bíða átekta og gera eins og aðrir?