145. löggjafarþing — 102. fundur,  20. apr. 2016.

útlendingar.

728. mál
[18:16]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig langar fyrst að segja það vegna orða hv. þingmanns að ég eins og allir þingmenn bind miklar vonir við að þingið fái tækifæri, tíma og svigrúm til að fjalla djúpt um þetta mál. Ég vil segja það úr þessum stól að það hefur skipt máli fyrir ráðherra í þessum erfiða málaflokki á þessu erfiða ári, sem hefur verið mikið átaksár og verið erfitt í flóttamannamálum, að finna að þingið fylgist grannt með og er vel inni í málunum og hefur áhuga á þeim. Það er ómetanlegt fyrir framkvæmdarvaldið þegar slíkir hlutir verða.

Hv. þingmaður spyr sérstaklega um stofnanastrúktúrinn. Ég held að alveg nauðsynlegt sé og það er mín upplifun að hlúa þurfi betur að þeim stofnunum sem fjalla um þessi mál. Það þurfum við að gera með því að veita þeim það fé sem þær þurfa. Ég held að það hafi kannski staðið málaflokknum mest fyrir þrifum að við höfum alls ekki haft nógu mikla burði til að hlúa að þessum stofnunum. Ég hygg (Forseti hringir.) að þessar breytingar á því séu mjög af hinu góða. Þær eru allar runnar undan rifjum þingmanna nefndarinnar og skipta gríðarlegu máli. (Forseti hringir.) Auðvitað er síðan hægt að líta til fleiri þátta og það munum við eflaust gera í framhaldinu, en ég held að þetta (Forseti hringir.) sé gríðarlega mikilvægur grundvöllur.