145. löggjafarþing — 102. fundur,  20. apr. 2016.

stofnun embættis umboðsmanns flóttamanna.

449. mál
[19:20]
Horfa

Flm. (Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu nokkurra þingmanna Samfylkingarinnar sem eru auk mín hv. þingmenn Árni Páll Árnason, Helgi Hjörvar, Valgerður Bjarnadóttir, Katrín Júlíusdóttir og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir.

Tillagan felur það í sér að innanríkisráðherra og félags- og húsnæðismálaráðherra verði falið að hefja undirbúning að stofnun embættis umboðsmanns flóttamanna á Íslandi. Undirbúningur verði hafinn með því að kanna kosti og þörf á að stofna sérstakt embætti umboðsmanns flóttamanna og að ráðherra geri Alþingi grein fyrir niðurstöðum könnunarinnar með skýrslu sem verði lögð fyrir þingið.

Tilefni málsins er rakið í greinargerð með tillögunni. Þar kemur fram að undanfarið hefur orðið fordæmalaus fjölgun á umsóknum um alþjóðlega vernd hér á landi eða 85% aukning á milli ára miðað við þann tíma sem þessi þingsályktunartillaga var samin og fyrst lögð fram. Málið er angi af stærra vandamáli sem varðar álfuna alla í kjölfar stríðsátaka sem hafa brotist út í Sýrlandi og víðar, vanda sem ekki mun leysast af sjálfu sér. Líf og afdrif þeirra sem nú dvelja við óviðunandi aðstæður í flóttamannabúðum víðs vegar um heim hefur verið mörgum hugleikið í vetur og hrært okkur flest til samkenndar. Í því ljósi hefur krafan um örugga málsmeðferð og góðar móttökur fólks á flótta fengið aukið vægi í samfélagi okkar og víðar.

Kannanir sýna að Íslendingar vilja almennt rétta hjálparhönd fólki sem kemur frá stríðshrjáðum svæðum þó að við sjáum líka á stundum í athugasemdakerfum vefmiðlanna dekkri kima þjóðarsálarinnar gagnvart fólki af framandi uppruna og trúarbrögðum. En kannanirnar sýna engu að síður að almennur vilji Íslendinga liggur í þá átt að fólk vill rétta hjálpandi hönd þeim sem hjálpar er þurfi.

Hér á Íslandi hafa hins vegar ítrekað komið upp mál sem hafa valdið harðri gagnrýni sem beinst hefur að slælegri málsmeðferð, löngum afgreiðslutíma, aðstæðum hælisleitenda meðan þeir bíða úrlausnar um hælisumsókn sína og loks endanlegri ákvörðun um synjun eða samþykki þess að þeir fái hér hæli. Það hafa komið fram ásakanir um að brotið sé á mannréttindum hælisleitenda, að mannúðarsjónarmið hafi verið sniðgengin o.s.frv. Og það hafa birst í fjölmiðlum vitnisburðir, m.a. lögmanna sem fara með málefni flóttafólks, sem eru dapurlegar lýsingar á því hvernig málsmeðferðin hefur beinlínis brotið fólk niður eins og lýst er í greinargerð með þingsályktunartillögunni og ég ætla ekki að fjölyrða frekar um hér en beini til fólks að kynna sér.

Þau atvik sem hafa komið upp á síðustu missirum hafa líka fært okkur heim sanninn um að flóttafólkið sem hingað leitar þarfnast betri ráðgjafar og handleiðslu varðandi lagalega stöðu sína og möguleika í íslensku samfélagi. Nú liggja fyrir þinginu tvö mál sem lúta að málefnum flóttafólks og hælisleitenda, fyrir utan það mál sem hér er til umræðu, það er annars vegar stóra frumvarpið sem við köllum svo og við ræddum hér rétt áðan, heildarlöggjöfin um útlendingalögin, og hins vegar minna frumvarp sem lýtur að því að bæta málsmeðferðina með stækkun kærunefndar og fleiri ráðstöfunum.

Í stóra frumvarpinu, sem er nýja útlendingalöggjöfin og er afrakstur þverpólitískrar vinnu um þann málaflokk, er gert ráð fyrir því að öll samskipti útlendinga við íslensk stjórnvöld fari fram í gegnum eina stofnun, Útlendingastofnun. Hér skal tekið undir það sjónarmið að samþætta þurfi þá þjónustu sem íslensk stjórnvöld geta veitt útlendingum, þar á meðal hælisleitendum, en jafnframt verður að benda á mikilvægi þess að hagsmunagæsla og réttaraðstoð við útlendinga sé á einni hendi. Útlendingastofnun, sem úrskurðar um það hvort dvalarleyfi skuli veitt, getur ekki í reynd sinnt því hlutverki svo að vel sé. Það er ekki vantraust á stofnunina sem slíka, það veltur á eðli máls.

Það er með öðrum orðum mikilvægt að skilið sé á milli úrskurðar- og rannsóknarhlutverksins, sem Útlendingastofnun hefur með höndum, og hagsmuna- og réttargæsluhlutverksins sem þarf að sinna gagnvart flóttamönnum. Það er þá í reynd eina breytingin sem þessi þingsályktun hefði í för með sér fyrir stóra frumvarpið, þ.e. að hefja undirbúning að stofnun embættis sem færi með slíka hagsmuna- og réttargæslu.

Aðrir sem koma að málefnum flóttamanna, Rauði krossinn, Fjölmenningarsetur, mannréttindaskrifstofur, sveitarfélög og einstakir lögmenn, vinna hver fyrir sig gott starf, en þó viðurkenna allir þessir aðilar að samþættingar sé þörf og að hagsmunagæsla og réttaraðstoð við útlendinga þyrfti að vera á einni hendi. Það er með öðrum orðum mikilvægt að hafa hreinar stjórnsýslulínur á borð við þær að skilja á milli þess úrskurðar- og rannsóknarhlutverks sem Útlendingastofnun hefur með höndum annars vegar og hagsmuna og réttargæslu flóttamanna hins vegar, eins og fyrr segir.

Þessi tillaga okkar þingmanna Samfylkingarinnar miðar þannig að samþættingu ráðgjafar og aðstoðar, sem flóttamönnum er veitt á Íslandi, þannig að þeir geti leitað á einn stað þar sem hagur þeirra er borinn fyrir brjósti.

Nú eru tæp tvö ár frá því að Rauði krossinn samdi við innanríkisráðuneytið um að taka að sér hagsmunagæslu þeirra sem sækja um alþjóðlega vernd á Íslandi. Rauði krossinn þiggur núna fjárframlög frá ráðuneytinu til að sinna þessu verkefni. Hann sinnir þessu verkefni vel. En sá annmarki er á þessu fjárveitinga- og vinnuveitendasambandi Rauða krossins við ráðuneytið að það gæti ógnað sjálfstæði eða að minnsta kosti ímynd Rauða krossins sem hlutlausra mannúðarsamtaka. Til dæmis geta fjárvana hælisleitendur ekki valið sér talsmann þar sem íslensk stjórnvöld greiða einungis lögfræðingum á vegum Rauða krossins. Þetta hefur verið gagnrýnt af lögmönnum. Þó að við vitum að starfsmenn Rauða krossins hafi lagt sig fram og leggi sig fram um að sinna hlutverkinu vel þá er sú hætta til staðar að eftirlits- og aðvörunarhlutverkið, sem Rauði krossinn hefur haft með höndum varðandi réttindi flóttamanna og hælisleitenda, fari forgörðum.

Með því að koma á fót embætti umboðsmanns flóttamanna væri tryggt að hælisleitendum og flóttamönnum yrði ekki aðeins veitt hlutlaus heldur virk aðstoð sem fyrst og fremst tæki mið af þeirra hagsmunum og réttarstöðu. Umboðsmanni væri þá falið að sinna hlutverki talsmanns hælisleitenda eða útvista því og útvega talsmann eftir atvikum líkt og Rauði krossinn gerir nú. Þá mætti gera ráð fyrir að umboðsmaður flóttamanna ætti samstarf við og leiðbeindi flóttafólki í samskiptum við ráðgefandi aðila eða stofnanir á borð við Fjölmenningarsetur, Rauða krossinn og Útlendingastofnun sem mundu sinna sínu hlutverki við frekari úrlausn eftir sem áður.

Síðast en ekki síst má ætla að með stofnun umboðsmanns flóttamanna væri girt fyrir það sem gerst hefur ítrekað að opinber embætti á borð við Útlendingastofnun fái yfir sig reiðiöldur almennings þegar teknar eru ákvarðanir eða úrskurðað um réttindi flóttamanna og hælisleitenda.

Virðulegi forseti. Það þarf vart að fjölyrða um þýðingu þess að vanda vel til verka við móttöku flóttamanna sem hafa lagt á sig erfitt og oft lífshættulegt ferðalag um langan veg til að forða sér og fjölskyldum sínum frá stríðsógnum á átakasvæðum eða úr óbærilegum aðstæðum af öðrum toga. Móttaka fólks sem gengið hefur í gegnum þær mannraunir sem fréttir votta síðustu mánuði og missiri krefst því ýtrustu fagmennsku. Það á jafnt við um hælisleitendur sem þá flóttamenn sem hingað koma í boði íslenskra stjórnvalda, svokallaða kvótaflóttamenn.

Á Norðurlöndum er nú, eins og við höfum rætt hér fyrr í dag, mikil kvika í löggjöf og stefnumótun um málefni flóttamanna. Ástæðan er sú öra þróun sem nú á sér stað í málaflokknum vegna heimsviðburða. Við eigum að fylgjast vel með því sem um er að vera og þeirri stefnumótun og löggjöf sem verið er að þróa og vinna í nágrannalöndum okkar, en við eigum líka að taka frumkvæði og ekki vera hrædd við að stíga ákveðin skref til bóta. Við gætum, virðulegi forseti, verið í fararbroddi og öðrum þjóðum fyrirmynd í þessum málaflokki. Við eigum ekki að hika við að taka að okkur það hlutverk ef við erum í færum til þess.