145. löggjafarþing — 104. fundur,  29. apr. 2016.

rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga og skattundanskotum.

711. mál
[11:49]
Horfa

Flm. (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég held að þetta sé afar áhugaverð og mikilvæg athugasemd sem kemur fram hjá hv. þingmanni.

Í grein eftir Indriða H. Þorláksson segir, með leyfi forseta, og ég vil gera hans orð að mínum um þessi mál.

„Mikill (froðu)gróði var í íslenskum fyrirtækjum einkum fjármálafyrirtækjum á árunum fyrir hrun, arðgreiðslur gífurlegar og hlutabréfavelta lífleg. Hvað varð um þennan arð og söluhagnaðinn? Ekki fannst hann í gjaldþrota fjármálastofnunum og eignarhaldsfélögum. Þennan kafla hrunsögunnar vantar og þær skýringar sem hann gæti gefið á þeim atburðum sem hér urðu í hruninu og reyndar eftir það líka.“

Hérna bendir Indriði H. Þorláksson, á sama þátt og hv. þm. Oddný G. Harðardóttir, á að tilurð fjármagnsins er eitthvað sem þarf líka að skoða sérstaklega og ég legg til að hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd skoði það mál sérstaklega. Ég vona svo innilega að til standi að taka málið til efnislegrar umfjöllunar, en við séum ekki hér, forseti, að ræða þetta bara til að renna því til nefndar svoleiðis að fólk geti aftur farið að taka til við það sem hæstv. ríkisstjórn kallar mikilvæg mál.