145. löggjafarþing — 104. fundur,  29. apr. 2016.

rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga og skattundanskotum.

711. mál
[11:51]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þó að sumir haldi því fram að aflandsfélög séu nauðsynleg í sumum tilfellum til að halda uppi viðskiptum þá er það alrangt. Þau eru alltaf stofnuð út af leynd og til að komast hjá skattgreiðslum. Afhjúpanir Panama-skjalanna hafa valdið reiði ekki bara hér á Íslandi heldur úti um allan heim vegna þess að menn verða náttúrlega reiðir út af óréttlætinu þegar ríka fólkið sem notar skattaskjólin lætur almenning bera sinn hlut til greiðslu til samfélagsins. En alþjóðasamtök úti um allan heim eru að rísa upp og vilja setja bann við skattaskjólum, m.a. eru það alþjóðasamtök jafnaðarmanna og jafnaðarmannaflokkurinn á Evrópuþinginu. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hún telji ekki mikilvægt að Íslendingar leiti til slíkra samtaka og leggi þeim lið við að uppræta (Forseti hringir.) þetta alls staðar. Kannski getum við ekki gert þetta alveg ein.