145. löggjafarþing — 104. fundur,  29. apr. 2016.

rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga og skattundanskotum.

711. mál
[15:56]
Horfa

Elín Hirst (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel að hluti af því sem fram kemur í þeirri þingsályktunartillögu sem við fjöllum um núna og hv. þm. Svandís Svavarsdóttir er fyrsti flutningsmaður að, sé nokkuð sem ég gæti vel hugsað mér að styðja, eins og til dæmis varðandi rannsóknarnefnd og að setja þurfi á fót rannsóknarhóp. Mér finnst einnig afar athyglisverð sú þingsályktunartillaga sem hér verður rædd á eftir þar sem segir að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni að beita sér fyrir alþjóðlegum viðskiptaþvingunum gagnvart — ég vil ekki kalla það lágskattaríki, frekar skattaskjól. Mér finnst mjög gott að fá þessar hugmyndir upp hérna. Við verðum að skoða allar leiðir sem mögulegar eru til þess að stoppa upp í þessi árans göt. Ég fagna því eins og áður segir. En auðvitað þurfa tillögurnar að fara til þinglegrar meðferðar. En eins og staðan er núna þá sé ég þarna ágæta, jákvæða punkta í báðum tillögum.