145. löggjafarþing — 104. fundur,  29. apr. 2016.

rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga og skattundanskotum.

711. mál
[17:06]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það andrúmsloft sem flest þessara aflandsfélaga voru stofnuð í þó ekki öll — enda höfum við dæmi úr þessum ágætu skjölum um að enn er verið að stofna slík félög — en andrúmsloftið á árunum fyrir hrun var mjög mótað af þeirri stjórnarstefnu sem þá hafði verið við lýði sem var mjög sterklega lituð af nýfrjálshyggju og rætt um að Ísland þyrfti að vera í samkeppni um að lækka skatta til að geta verið í samkeppni við skattaskjól.

Ég held að við séum komin ansi langt frá þeirri umræðu, enda höfum við vonandi eitthvað lært af efnahagshruninu og þeirri kreppu sem gengið hefur yfir Evrópu og raunar öll Vesturlönd þar sem við sáum þetta samspil verða til þess — þessa miklu afregluvæðingu, svokallaða einföldun og kerfi sem gerði fólki í raun léttara fyrir að fara fram hjá kerfinu, fram hjá leikreglunum — að við sjáum fram á meiri misskiptingu gæða á Vesturlöndum en við höfum sé alla 20. öldina. Það er hræðileg þróun. Það er hræðileg þróun að horfa á að við séum að eiga hér við kerfi þar sem þeir ríkustu verða alltaf ríkari og eftir situr þessi stóri hópur fólks hvað sem við köllum hann, ekki bara fátækasta fólkið heldur millistéttin, sem situr eftir og sér ekki fram á bjartari tíma. Þetta er ótrúlega brýnt viðfangsefni sem við ættum að vera að fjalla um. Skattaskjólin eru ein birtingarmynd þeirrar misskiptingar, því að þau eru bara fyrir útvalinn hóp fólks.

Ef við gætum eitthvað lært þá væri það auðvitað það að við þurfum að hafa skýrar reglur og við þurfum að hafa sameiginlegan skilning á því að það sé atvinnulífinu og samfélaginu til góðs að við spilum eftir þeim leikreglum.

Ég held að það liggi á borði hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að meta samspil alls þess sem hægt er að gera. Ég hefði kosið, eins og ég hef sagt hér áður, að ríkisstjórnin hefði stigið skýrar fram með sína sýn (Forseti hringir.) í þessum málum, hvað ætti að gera. Þá hefði kannski ekki verið þörf á þessari tillögu ef strax hefði verið ráðist fram. En nú vonast ég til þess að þessi tillaga um rannsóknarnefnd geti farið saman við annað sem gert er. (Forseti hringir.) Ég ætla að leyfa mér að vera vongóð eftir þessa umræðu um að við getum náð saman um það; mér finnst hún mjög efnileg í það. Nú ætla ég að hætta að tala, herra forseti, og biðst afsökunar á tímanum.