145. löggjafarþing — 105. fundur,  2. maí 2016.

afstaða Framsóknarflokksins til skattaskjóla.

[15:02]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vildi beina fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra vegna þess að mér er svo farið að ég á svolítið erfitt með að átta mig á stefnu ríkisstjórnarinnar og sérstaklega Framsóknarflokksins hvað varðar skattaskjól og eign manna í skattaskjólum og viðskipti manna úr skattaskjólsfélögum. Ástæðan fyrir því er einkanlega sú að við fengum fréttir af því nýverið að framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins hefði í slagtogi með mörgum af helstu trúnaðarmönnum Framsóknarflokksins fyrr og síðar staðið í stórfelldum viðskiptum úr aflandsfélögum. Þegar þetta mál komst í hámæli tók framkvæmdastjórinn þá virðingarverðu afstöðu, sem mér finnst hrósverð, að stíga til hliðar. Þá brá svo við að forusta Framsóknarflokksins sem ekki er í skattaskjólum, þ.e. ekki forsætisráðherrann fyrrverandi, formaður flokksins, heldur varaformaðurinn, núverandi forsætisráðherra, ritarinn, hæstv. félagsmálaráðherra, og þingflokksformaðurinn, gaf þá yfirlýsingu út sem framkvæmdastjórn flokksins að ekki hefði verið ástæða fyrir framkvæmdastjórann til að stíga til hliðar, segja af sér. Mig langar að fá skýringar á því frá hæstv. forsætisráðherra hvers vegna. Hvers vegna er það afstaða forustu Framsóknarflokksins að ekki sé ástæða til að stíga til hliðar úr opinberu starfi ef menn hafa átt í viðskiptum í aflandsfélögum? Hvaða skilaboð er hæstv. forsætisráðherra að senda gagnvart öðrum þeim sem eiga í slíkum viðskiptum um afstöðu Framsóknarflokksins og ríkisstjórnar hans til (Forseti hringir.) til slíkra viðskipta ef hann telur ekki ástæðu til að þeir sem gegna opinberum (Forseti hringir.) trúnaðarstörfum víki til hliðar þegar þeir eru staðnir (Forseti hringir.) að viðskiptum úr skattaskjólum?