145. löggjafarþing — 106. fundur,  2. maí 2016.

alþjóðlegar viðskiptaþvinganir gagnvart lágskattaríkjum.

733. mál
[17:50]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson sagði að til þess að Íslendingar gætu hrist af sér slyðruorðið þyrftum við að vera framúrskarandi. Hann sagði að við þyrftum að ganga lengra en aðrir. Er það að vera framúrskarandi að grípa til eða hafa frumkvæði að viðskiptabanni á þá sem eru kannski grellnastir í málefnum skattaskjóls? Nei. Ekki að mati hv. þm. Helga Hrafns Gunnarssonar. Sú afstaða hans kom mér mjög á óvart. En ég tel líka að hún byggist á misskilningi. Hv. þingmaður tekur undir orð hv. þm. Frosta Sigurjónssonar og segir: Við verðum að skoða hvar viðskiptaþvinganir koma verst niður, og kemst að þeirri niðurstöðu að hugsanlega sé það fátækt fólk í þeim löndum sem þvingunum er beitt gegn. Þá verða menn að hafa í huga eftirfarandi: Það eru margvíslegir þvingunarkostir til staðar. Öryggisráðið, sem er eina stofnun heimsins sem getur bundið öll ríki veraldar, hefur margvísleg úrræði. Þau beinast til dæmis að ferðatakmörkunum, að þjónustuviðskiptum, að almennum viðskiptum. Hægt er að beina þeim gegn heilum þjóðum, gegn einu fyrirtæki eða einstaklingum sem þykja hafa staðið sig illa eða handan eðlilegra marka.

Hv. þingmaður má ekki kaupa rök hv. þm. Frosta Sigurjónssonar algerlega hrá. Hann verður að skoða þau með krítískum augum. Hægt er að grípa til þvingana sem hafa massíf áhrif á lítinn hóp manna eða fyrirtækja án þess að það þurfi endilega að hafa einhver áhrif á afkomu hins breiða fjölda í viðkomandi landi.