145. löggjafarþing — 106. fundur,  2. maí 2016.

útlendingar.

560. mál
[18:49]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um útlendinga, nr. 96/2002, með síðari breytingum, kærunefnd og fjölgun nefndarmanna.

Frumvarpið var lagt fram af meiri hlut allsherjar- og menntamálanefndar. Nú hefur nefndin fjallað um málið og fengið til sín gesti.

Markmið frumvarpsins er að tryggja sanngjarna og skilvirka málsmeðferð við meðferð umsókna um alþjóðlega vernd. Þeim breytingum sem frumvarpið felur í sér er ætlað að efla starfsemi kærunefndar útlendingamála og styðja við vandaða málsmeðferð og aukinn málshraða á fyrsta stjórnsýslustigi.

Lagt er til að nefndarmönnum í kærunefnd útlendingamála verði fjölgað úr þremur í sjö og þeir skuli hafa lokið embættis- eða meistaraprófi í lögfræði og hafi sérþekkingu á útlendingamálum. Við meðferð frumvarpsins í nefndinni var bent á að það væri fámennur hópur sem byggi yfir þessari sérþekkingu hér á landi og hefði reynslan sýnt að erfitt gæti verið að finna hæfa einstaklinga sem uppfylltu svo ríkar kröfur. Í ljósi þessa telur meiri hluti nefndarinnar rétt að fella þetta hæfnisskilyrði brott en það er til samræmis við þær hæfniskröfur sem gerðar eru til formanns og varaformanns nefndarinnar.

Í frumvarpsins er kveðið á um að ráðherra skipi þrjá menn í nefnd sem meta skuli hæfni umsækjenda um embætti formanns og varaformanns kærunefndar útlendingamála og skuli nefndin láta ráðherra í té skriflega rökstudda umsögn um umsækjendur. Jafnframt skuli í umsögn nefndarinnar tekin afstaða til þess hvaða umsækjandi sé hæfastur til að hljóta starf og að óheimilt sé að skipa umsækjanda sem nefndin hefur ekki talið hæfastan meðal umsækjenda. Meiri hluti nefndarinnar leggur til þá breytingu að sú nefnd sem meta skuli hæfni skuli ekki taka afstöðu til þess hvaða umsækjandi sé hæfastur heldur einvörðungu skila inn skriflegri rökstuddri umsögn til ráðherra en það er til samræmis við lög nr. 85/2015, um úrskurðarnefnd velferðarmála.

Í frumvarpinu er einnig kveðið á um að nefndinni sé heimilt að fela formanni að úrskurða einum í málum sem nefndin telur ekki fela í sér stefnumótandi ákvarðanir. Nefndin telur rétt að orðalag ákvæðisins sé fært til samræmis við lög nr. 85/2015, um úrskurðarnefnd velferðarmála, en þar er miðað við að ef mál er viðamikið eða fordæmisgefandi geti formaður ákveðið að fimm nefndarmenn eigi sæti í nefndinni við umfjöllun um það. Meiri hluti nefndarinnar tekur einnig undir þau sjónarmið sem fram koma í umsögn Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna að mikilvægt sé að kærunefndin setji sér skýrar verklagsreglur við mat á því hvenær formanni sé heimilt að úrskurða einum.

Í frumvarpinu er einnig lagt til að kærunefndinni verði veitt rýmri heimild til að meta í hvaða málum þörf sé á að kærandi komi sjálfur fyrir nefndina. Með þessari breytingu er afnumin sú meginregla að kærandi eigi rétt á að koma fyrir nefndina óski hann þess sjálfur og lagt til að nefndin geti þess í stað boðið kæranda eða talsmanni hans að koma fyrir nefndina þegar hún telur þess þörf. Fram kom í umsögn kærunefndar útlendingamála að æskilegt væri að formanni og varaformanni væri einnig veitt heimild til að ákveða að kærandi komi fyrir nefnd þar sem að öðrum kosti yrði slík ákvörðun þung í vöfum og gæti valdið töfum á máli. Meiri hluti nefndarinnar tekur undir þessi sjónarmið og leggur til breytingu á ákvæðinu.

Þá er í frumvarpinu lagt til að kæra fresti ekki réttaráhrifum þegar um er að ræða ákvörðun þar sem synjað er um hæli og mannúðarleyfi og kærandi kemur frá ríki sem er á lista yfir örugg upprunaríki. Við meðferð frumvarpsins í nefndinni kom fram nokkur gagnrýni á þessa breytingu þar sem talið var að hún gæti leitt til skerðingar á réttaröryggi umsækjenda frá nefndum ríkjum. Meiri hluti nefndarinnar leggur til að c-liður 3. gr. falli brott en mat nefndarinnar er að rétt sé að skoða þetta atriði nánar þegar frumvarp til laga um útlendinga sem nú liggur fyrir þinginu kemur til meðferðar hjá nefndinni, það er 728. mál á yfirstandandi þingi.

Meiri hluti nefndarinnar leggur því til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem hér hafa verið raktar og ég orðlengi ekki frekar um.

Undir nefndarálitið skrifa hv. þingmenn Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður og framsögumaður, Guðmundur Steingrímsson, Líneik Anna Sævarsdóttir, Jóhanna María Sigmundsdóttir og Karl Garðarsson.

Undir nefndarálitið skrifa með fyrirvara hv. þingmenn Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir og Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir og munu þær væntanlega gera grein fyrir honum.

Hv. þm. Vilhjálmur Árnason var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Ég vil þakka öllum gestum sem aðstoðuðu nefndina við að átta sig og skýra málið í meðferð þess fyrir komuna og framlag þeirra og þakka nefndarmönnum fyrir gott samstarf við vinnu að málinu. Ég lýk hér framsögu og legg til að frumvarpið verði samþykkt með fyrirliggjandi breytingartillögum.