145. löggjafarþing — 107. fundur,  3. maí 2016.

störf þingsins.

[13:43]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Í síðustu viku féllu um 50 manns að talið er í loftárás á sjúkrahús á vegum Lækna án landamæra í borginni Aleppó í Sýrlandi. Þessi árás sem sýrlenski stjórnarherinn stóð fyrir er hörmulegur stríðsglæpur. Árásir á sjúkrastofnanir eru einhver alvarlegasti stríðsglæpur sem hægt er að drýgja samkvæmt alþjóðalögum.

Því miður var ekki um einstæðan atburð að ræða. Alþjóðahjálparstofnanir hafa bent á að allir stríðsaðilar í borgarastyrjöldinni hafi framkvæmt slíkar árásir. Þannig hafi á árinu 2015 verið ráðist 94 sinnum á sjúkrahús sem tengjast Læknum án landamæra í landinu. Í mörgum tilvikum var um svokallaðar tvöfaldar árásir að ræða þar sem fyrst er skotið sprengju og svo er önnur látin fylgja til að granda því fólki sem mætir á vettvang til að reyna að bjarga slösuðum.

Síðasta hálfa árið hefur her Sádí-Arabíu þrisvar sinnum varpað sprengjum á sjúkrahús í Jemen. Ráðist hefur verið á spítala í Suður-Súdan og starfsfólk myrt. Í október á síðasta ári drap Bandaríkjaher meira en 40 manns í árás á sjúkrahús í Kunduz í Afganistan og lagði þar í rúst eina tæknisjúkrahús sinnar tegundar í norðanverðu landinu. Þessar fregnir ber allar að sama brunni. Virðing fyrir alþjóðalögum fer þverrandi og sífellt fleiri stríðsaðilar telja heilbrigðisstarfsfólk lögmæt skotmörk í hernaði.

Ég vil nota þennan vettvang til að hvetja hæstv. utanríkisráðherra til að andæfa þessari þróun á alþjóðavettvangi og hvet þingheim allan til að láta sig málið varða.


Efnisorð er vísa í ræðuna