145. löggjafarþing — 107. fundur,  3. maí 2016.

fjármálastefna 2017--2021.

741. mál
[14:59]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að það hefði verið heppilegt að fjármálaráð væri nú þegar fullskipað. En til þess þurfa að berast tilnefningar, annars vegar frá forsætisráðherra og hins vegar frá þinginu. Það þarf að ljúka því. Við munum þurfa að taka tillit til þess við framgang þessa máls. Ég veit að vinna stendur yfir við að koma ráðinu saman. Það hefur verið talað við einhverja einstaklinga um hvort það mætti tilnefna þá í ráðið og ekki allir sem haft hefur verið samband við hafa verið í aðstöðu til að taka það að sér. En ég geri ráð fyrir því að fá þessar tilnefningar á allra næstu dögum í síðasta lagi.

Varðandi skattapólitíkina er allt hárrétt sem hv. þingmaður segir. Það er mjög eðlilegur hluti af umræðu um þessi mál að ræða skattstefnu stjórnvalda. Ég er algjörlega ósammála því að hér hafi ríkisstjórnin verið að vinna í því að veikja skattstofnana. Ég er algjörlega ósammála því. Ef við tökum t.d. virðisaukaskattinn hefur hann mjög verulega tekið við sér eftir að við ákváðum að gera ákveðnar breytingar á prósentunum og breikka skattstofnana, fækka undanþágum með lægra almennu þrepi, því lægsta sem við höfum haft. Virðisaukaskatturinn stefnir í að verða um 200 milljarða skattstofn fyrir ríkið.

Ég segi að það sama eigi við um breytingar á tekjuskattinum sem m.a. hafa skipt máli til þess að skapa frið á vinnumarkaði, svo dæmi sé tekið, vegna millitekjufólks. Það var fyrst eftir að ríkisstjórnin gerði grein fyrir áherslum sínum í tekjuskattskerfinu sem endanlega tókust samningar á almennum markaði.

Ég gæti haldið áfram. En það sem einkum setur mark sitt á tekjulínuna er brottfall ýmissa tímabundinna tekjustofna ríkisins.