145. löggjafarþing — 107. fundur,  3. maí 2016.

fjármálastefna 2017--2021.

741. mál
[15:07]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi fjárfestingarstigið tek ég undir að þegar við skoðum A-hluta ríkissjóðs er það enn mjög lágt í sögulegu samhengi. Hér erum við samt að leggja upp með að hið opinbera fari upp í 1,5% á síðari hluta áætlunartímans. Til lengri tíma finnst mér líklegt að jafnvægið gæti fundist einhvers staðar nær 2% sem sýnir hversu mikið vantar upp á. Við sjáum ekki mikið svigrúm til að hækka hlutföllin þetta mikið, m.a. vegna allra þeirra fjárfestinga sem eru fyrirhugaðar í einkageiranum og það eru mjög stór verkefni, sem ég rakti í inngangi mínum, í gangi hjá fyrirtækjum í ríkiseigu, svo sem 20 milljarða fjárfesting á þessu ári við flugvöllinn í Keflavík. Landsnet er með áform um að styrkja raforkukerfið, háar tölur eru nefndar í því samhengi o.s.frv.

Varðandi skatta á einstaklinga hafa okkar breytingar komið inn yfir tímabil. Við höfum lagst gegn þeim skattahækkunum sem voru boðaðar sem sérstök ráðstöfun vegna stöðunnar hjá ríkissjóði.

Þegar við veltum fyrir okkur hvað það er sem einkum veldur spennu í hagkerfinu er alveg augljóst að þar er miklu meira við vinnumarkaðinn að sakast og þær gríðarlegu launahækkanir sem farið hefur verið fram á en þær breytingar á tekjuskattskerfinu sem við höfum beitt okkur fyrir. Við höfum nálgast verkefnið þannig að við vildum sanngjarnara skattkerfi. Við teljum að það sé sanngjarnara með tveimur þrepum og háum persónuafslætti en í þriggja þrepa kerfi. Ég rifja aftur upp að þessar breytingar (Forseti hringir.) voru mikilvægur liður í því að ná saman samningum á almenna markaðnum.