145. löggjafarþing — 107. fundur,  3. maí 2016.

fjármálastefna 2017--2021.

741. mál
[15:37]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við fjöllum um fjármálaáætlun og fjármálastefnu 2017–2021. Eins og hefur komið fram sýnist sitt hverjum. Í sjálfu sér er ágætt að geta horft fram í tímann og ég tel það nauðsynlegt. Mér fannst reyndar þegar opinberu fjármálin voru samþykkt á sínum tíma, þar sem ráðuneytum og stofnunum var gert að birta langtímaáætlun sína til þriggja ára, að það hefði átt að haldast í hendur, þ.e. að hvort tveggja ætti að vera til fimm ára. En þetta var niðurstaðan og það er eins og það er.

Ég ætla aðeins að fletta í gegnum áætlunina. Eðli málsins samkvæmt erum við ekki sammála þeirri stefnu sem birtist þar að öllu leyti. Ég tek undir að það er eitt og annað ágætt í plagginu, skárra væri það ef svo væri ekki, en okkur í Vinstri grænum líkar ekki grunnhugmyndafræðin.

Á fyrstu síðu í inngangi er talað um að ríkisfjármálin hafi gjörbreyst frá því að ríkisstjórnin lagði fjárlagafrumvarpið fram 2013. Það má svo sem segja að ríkisreikningur hafi verið u.þ.b. á núlli árið 2013. Ég held að hann hafi verið 700 milljónir í mínus, eitthvað slíkt. Því er gjarnan enn þá haldið fram að lífið hafi hafist eftir að þessi ríkisstjórn tók við.

Slitabúin og stöðugleikaframlögin eru rædd en við höfum ekki enn fengið að vita nákvæmlega hversu mikil verðmæti þetta eru og hver verðmat þessar eignir. Við höfum orð ráðherra fyrir því, og það kemur fram á glærum sem við fáum væntanlega frá ráðuneyti hans á morgun, eða honum sjálfum, að flýta skuli sölu eigna og endurheimtum eins og kostur er.

Ráðherra hefur sjálfur sagt að takmarkið sé að selja sem allra mest fyrir árslok. Mér finnst það hættuleg umræða að ætla að setja það þannig af stað og tel að það geti orðið til þess að verðfella eignirnar. Mér finnst ekki mjög ábyrgt að tala með þessum hætti.

Það er líka áhugavert þegar maður horfir á framsetninguna að það segir að fjárfestingarstiginu hafi verið haldið of lágu frá 2009. Ég velti fyrir mér hvort hæstv. fjármálaráðherra og fólk hans telji að það hafi verið möguleiki á einhverju öðru eftir hrun en að hafa fjárfestingarstigið lágt. Það var veruleiki sem við stóðum frammi fyrir, galtómur ríkissjóður og vel það. Það er ekki eins og að það hafi verið val. Núna er það hins vegar val hvernig ríkisstjórnin ákveður að fjárfesta.

Það er gumað af miklum framkvæmdum og öðru slíku. Margt af því hefur komið fram áður, til að mynda í samgönguáætlun fyrrverandi ríkisstjórnar, sem er það sem gildir því að það er ekki búið að samþykkja áætlun af hálfu þessarar ríkisstjórnar og hún er ekki í takt við það sem hér kemur fram, miðað við fjármögnun. Það sama má segja um framkvæmdir sem voru ákveðnar m.a. í fjárfestingaráætlun, sem þessi ríkisstjórn tók og slátraði nánast á fyrsta degi. Þetta eru gömul verkefni sem nú er verið að gera, að mér finnst, að kosningamáli fyrir ríkisstjórnarflokkana, Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk.

Ég hef rætt um tekjustofna ríkisins en þar er auðvitað eitt og annað undir. Hér er talað um vörugjaldaafnám og niðurfellingu tolla og lækkun tryggingagjalds og guð má vita hvað. Ég mundi vilja sjá gerða almennilega úttekt á því hvernig þessar lækkanir hafa komið neytendum að gagni, en svo hefur líka orðið matarskattshækkun, vissulega. Við höfum séð undanfarið að lækkanirnar virðast ekki skila sér á viðunandi hátt. Það væri áhugavert áður en áfram er haldið í þessum skrefum að sjá hvort þær skila sér virkilega eða hvort kaupmenn og aðrir sem eiga að skila þeim alla leið til neytenda taki það.

Fjallað er um stór mál eins og menntakerfið og lánasjóðinn og ýmislegt fleira. Rætt er um að fjármagnið vegna styttingarinnar eigi að haldast í framhaldsskólunum, ef ég skil það rétt. Ég velti fyrir mér hvort það sé einhver umframstyrking, sem skólarnir þurfa svo sannarlega á að halda því að þeir eru því miður mjög sveltir til allt of margra ára.

Ég tek ekki undir það sem kemur fram um að verið sé að auka menntun. Hún er auðvitað takmörkuð, bæði í gegnum aldur og í gegnum Lánasjóð íslenskra námsmanna sem hefur verið töluvert til umræðu síðustu daga, sérstaklega í tengslum við námsmenn erlendis.

Ég tek undir þau orð hv. þm. Oddnýjar Harðardóttur áðan að það fari ekki saman að lækka skuldir og ætla að vera með skattalækkanir á sama tíma. Við teljum ekki að það verði til þess að viðhalda stöðugleikanum.

Á bls. 10 er talað um Fæðingarorlofssjóð. Ég velti fyrir mér hvað það þýðir þegar sagt er að skoða eigi fjármögnun sjóðsins samhliða framtíðarstefnunni sem starfshópur skilaði hingað, hvað þarna sé undir. Það væri áhugavert ef ráðherra gæti svarað því.

Á bls. 6 í Fjármálastöðugleika, riti Seðlabankans, kemur fram að það eru fyrst og fremst skuldir eignafólks og hærri tekjuhópa sem hafa lækkað. Það er í takt við það sem við þingmenn Vinstri grænna höfum rætt, þannig að það er svo sem ekkert nýtt í því.

Eins og ég sagði áðan er samneyslan í þessu fimm ára plaggi hér algjörlega í sögulegu lágmarki og hefur hún þó verið mjög lág undanfarið. Það er kannski þar sem pólitíkin birtist, eins og við áttum orðaskipti um áðan. Það er fyrst og fremst það sem okkur greinir á um, hvort við viljum aukna eða minni samneyslu. Við höfum talað fyrir aukinni samneyslu.

Það er líka talað um að fasteignaverð hafi hækkað töluvert og fjallað um bæði íbúðafjárfestingu og atvinnuvegafjárfestingu. Þessi hækkun er í sjálfu sér ekki skuldadrifin vegna þess að þeir eiga þetta sem hafa efni á því. Við vitum alveg að bæði efnafólk og fyrirtæki hafa keypt fasteignir sem hefur orðið til þess að verð hefur hækkað, en íbúðirnar fara fyrst og fremst í útleigu á Airbnb og öðru slíku. Það er það sem hefur fyrst og fremst hækkað húsnæðisverð og eru stórir fjárfestar í því.

Ég velti fyrir mér fjárfestingu ríkissjóðs og hvort við förum að sjá aukna einkavæðingu í vegaframkvæmdum, skólamálum eða hverju það er sem þarf að fjárfesta í, af því að það lítur út fyrir að þessi ríkisstjórn hyggist ekki fjárfesta nema eins og hér kemur fram, fjárfestingin er lítil í upphafi áætlunarinnar og fer svo vaxandi.

Það er líka komið inn á raunlaun og að þau hafi hækkað mikið, og er alltaf miðað við eitthvert meðaltal í því samhengi, og kaupmátt og annað slíkt. Samt verðum við að velta því fyrir okkur hverjir það eru sem sitja eftir. Það eru öryrkjar, eldri borgarar og láglaunafólk sem finnur ekki fyrir auknum kaupmætti. Það finnur hins vegar fyrir hækkun matarskattsins. Það er engin lausn á því, finnst mér, í þessari áætlun.

Við ræddum áðan skatttekjur og hvernig við vildum fjármagna ríkissjóð og ráðherra endaði á því í andsvari áðan að fjalla um hvað það væri sem þyrfti að fjármagna. Við höfum viljað síðustu þrjú árin að byggt væri upp á annan og hraðari hátt, bæði heilbrigðiskerfið og menntakerfið t.d., og í anda og í takt við það sem var afhent hér í formi undirskrifta.

Fimm ár í viðbót er langur tími, ef það verður raunin, t.d. varðandi byggingu meðferðarkjarna og lausnir fyrir Landspítalann. Það hefði verið hægt að gera á mun skemmri tíma ef tekjustofnarnir hefðu ekki verið veiktir á þann hátt sem gert var. Varðandi undirliggjandi rekstur, þetta kemur fram, eru það eins og ég sagði áðan fyrst og fremst hagfelld atriði líkt og olían, ferðaiðnaðurinn, skattarnir, bankaskatturinn og stöðugleikaframlögin og annað slíkt, sem hafa orðið til þess að ríkissjóður gerir það sem hann er að gera. Ef það hefði ekki fallið til þá veit ég ekki alveg hvar við værum stödd miðað við skattstefnu þessarar ríkisstjórnar.

Á vinnumarkaðnum er talað um, og sem betur fer, að atvinnuleysi hafi minnkað. Það er m.a. vegna aðgerða fyrri ríkisstjórnar. Það er vert að minna á að ein af aðgerðum núverandi ríkisstjórnar var að skerða atvinnuleysisbótaréttinn einhliða sem er búið að dæma ólöglegan. Það geta allt að þúsund manns átt kröfu á ríkissjóð í formi endurgreiðslna. Þetta er dæmi um þau samvinnustjórnmál sem hefur mikið verið talað um.

Varðandi skólamálin vil ég segja að sú hugmyndafræði frjálshyggjufólksins er óbreytt að skólarnir eiga svolítið að framleiða fólk fyrir vinnumarkaðinn á sem skemmstum tíma. Það er ekki endilega verið að hugleiða það að fólk geti leitað í þau færi sem það vill og finni farveg fyrir það sem það langar að gera, heldur snýst þetta fyrst og fremst um, og það hefur komið fram í máli menntamálaráðherra, að framleiða fyrir atvinnulífi.

Þetta er stuttur tími til þess að fara í gegnum málið. Það er margt sem væri hægt að ræða en áður en ég brenn út á þessum fyrri tíma verð ég að taka undir varðandi ferðaþjónustuna. Ég sagði einmitt að hún væri einn af bjargvættum ríkisstjórnarinnar inn í hagkerfið. Hér skilar ráðherra ferðamála á núlli og hefur gert í þrjú ár. Það er svolítið eins og farið hafi verið á hugarflugsfund um hvað menn langi til að gera því að lítið er um beinar aðgerðaáætlanir þar sem við sjáum hvernig tekið er á því sem taka þarf á.

Það að fresta uppbyggingu innviða, eins og samgönguáætlunin gefur til kynna, kostar meira til framtíðar. Það er alveg klárt mál. Ráðherra talaði um að jafnvægið væri nálægt 2% í fjárfestingu en það yrði í kringum 1,5 í lok þessarar áætlunar. Þar er auðvitað viðurkenning á því að það er ekki nóg að gert og hægt væri að gera betur.

Það er eitt sem ég vil segja í restina. Eins og ráðherra sagði áðan virðist aldrei vera rétti tíminn til að lækka skatta. Það er akkúrat það sem við nefndum þegar við áttum í samtali vegna eldri borgara og öryrkja fyrir jólin. Það virðist heldur aldrei vera rétti tíminn til að gera verulega vel við þá sem minnst hafa, þ.e. að hækka laun þessa fólks.

Það er hægt að snúa þessu á báða bóga og má velta fyrir sér hvort okkur vantar þá samkvæmt þessu einhverjar tekjur til að standa undir því.

Ég kem líklega í aðra ræðu því að það er margt sem ég á eftir að segja og fara yfir í áætluninni. Þetta er 200 blaðsíðna plagg. Það er áhugavert að sjá að það kemur ekki fram nákvæmlega hvenær á að afnema höft eða ferli á losun hafta eða neitt slíkt, heldur er framsetningin svolítið loðin og án þess að fast sé í hendi hvernig og hvenær það verður gert, sem er óásættanlegt fyrir landsmenn. Það er ekki nóg að afnema fyrir aflandsfólkið. Það hlýtur að þurfa að afnema fyrir hinn almenna íbúa í landinu.