145. löggjafarþing — 107. fundur,  3. maí 2016.

fjármálastefna 2017--2021.

741. mál
[17:51]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir yfirferðina. Fyrrverandi fjármálaráðherra er á heimavelli þegar hann ræðir um þessa áætlun, eins og venja hefur verið til. Hv. þingmaður gerði samgönguáætlun að umtalsefni en ég komst ekki í hana í tíu mínútna ræðu minni. Ég vil segja að það er mjög sérstakt að þingmönnum séu aðeins ætlaðar tíu mínútur í að ræða svona stóra áætlun, þeir geta að vísu komið einu sinni í viðbót og talað, þótt mér sýnist áhugi á að ræða áætlunina reyndar ekki vera mjög mikill hjá stjórnarliðunum. En ég vil taka undir með hv. þingmanni og spyrja hann út í samgönguáætlun.

Samgönguáætlunin er nánast samgönguáætlun um ekki neitt. Ég skal taka dæmi. Á okkar svæði, svokölluðu norðursvæði, sem nær væntanlega frá Húnaflóa og allt austur að Þórshöfn, eru áætlaðar í ár 200 millj. kr. til vegaframkvæmda og 150 millj. kr. á næsta ári. Ég tek undir það sem hv. þingmaður segir að verið er að skera niður til að mynda afgang. Það eru alveg þekkt vísindi að það er enginn vandi að skera allt niður og skapa afgang. Það var hins vegar ekki gert í okkar tíð. Á erfiðleikaárum landsins, sennilega mestu erfiðleikaárum frá hruni síldarstofnsins með þeim áföllum sem komu þá, fjármálakreppunni, var gefið í í samgönguframkvæmdum þannig að ár eftir ár var slegið Íslandsmet í samgönguframkvæmdum.

Ég spyr hv. þingmann: Ef 150 millj. kr. verður niðurstaðan á norðursvæði á næsta ári, hvernig sér hann þá vegakerfið þróast og uppbyggingu á þeim svæðum sem við höfum alltaf talað um (Forseti hringir.) að væri komið að og nauðsyn að fara í?