145. löggjafarþing — 107. fundur,  3. maí 2016.

fjármálastefna 2017--2021.

741. mál
[18:12]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Ég get ekki hafið þessa ræðu eins og ekkert sé. Ég sagði það líka í gær þegar ég tók til máls í óundirbúnum fyrirspurnum að ég tel algjörlega óþolandi að ekki sé búið að segja okkur í minni hlutanum hver séu áherslumál þessarar ríkisstjórnar og hvað hún vilji leggja áherslu á fram að kosningum. Það er líka óþolandi að ekkert hafi verið látið uppi um kjördag og hér kemur ríkisstjórnarmeirihlutinn fram við minni hlutann, og reyndar fólkið í þessu landi, af algjörum dónaskap. Ég get ekki hafið mál mitt hér án þess að vekja athygli á því og mótmæla eindregið framkomu ríkisstjórnarmeirihlutans og kannski ekki síst þess ráðherra sem ber fram það mál sem við tölum um í dag. Hann lýsti því klárlega yfir hér að stytta ætti þetta kjörtímabil um eitt þing. Það þýðir þá að hér á ekki að hefja nýtt þing aðra vikuna í september. Það vil ég segja áður en ég kem að því efni sem hér er til umræðu.

Við ræðum hér fjármálaáætlun fyrir árin 2017–2021. Að vísu má segja um þennan dagskrárlið, ólíkt öðrum dagskrárliðum sem eru á dagskrá á eftir, að kannski er aðeins betur hægt að þola að efnt sé til þessarar umræðu vegna þess að hún er lögbundin. Þessa tekjuáætlun átti reyndar að liggja fyrir 1. apríl, held ég að sé rétt hjá mér, þannig að hún kemur seint fram, en það er lögbundið að fjalla um þetta mál og reyndar er það gert hér í fyrsta skipti í ár þannig að þetta hlýtur að vera eitt af forgangsverkum ríkisstjórnar hvað sem hún ákveður síðan. Það er skárra að tala um þetta mál hér en önnur mál sem ekki hefur verið talað við okkur í minni hlutanum um að rædd verði þar til gengið verður til kosninga.

Það er mikil framför að þessi fjármálaáætlun sé lögð fram, alveg hreint eins og lögin um opinber fjármál eru mikil framför í því hvernig farið er með ríkisfjármál og var ekki vanþörf á að bæta þar úr. Eins og einhver nefndi í umræðum áðan á þetta plagg vafalaust eftir að breytast í tímans rás en þetta er fyrsta áætlunin sinnar tegundar og ber að fagna því að hún er nú komin fram.

Þetta er fjármálaáætlun þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr og því er ekkert skrýtið við að hún sýni áherslur hennar. Ég er ekki sammála áherslum ríkisstjórnarinnar og þess vegna er ég ekki sammála mörgu sem fram kemur í áætluninni. Engu að síður er ágætt að fá hana fram. Þá er alveg ljóst að þegar annar meiri hluti verður í þinginu eru allar horfur á að áætluninni verði breytt og þá í anda nýs meiri hluta sem hér mun taka við, sem ég hef trú á að líti meira til jafnaðar í samfélaginu en gert er nú.

Mér fannst hæstv. fjármálaráðherra í andsvörum og framsögu sinni áðan — og reyndar hæstv. forsætisráðherra líka — reyna að gera lítið úr málflutningi okkar hér. Forsætisráðherrann sagði: Dettur einhverjum í hug að koma í veg fyrir framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli? Auðvitað dettur engum það í hug. En þegar sagt er að hér þurfi meiri opinbera fjárfestingu næstu árin sem þeir segjast ekki geta ráðist í vegna þess að Isavia sé í miklum framkvæmdum á Keflavíkurflugvelli er fólk ekki að tala um að hætta við þær og það er ekki að tala heldur um, eins og hæstv. forsætisráðherra gaf í skyn, að einhverju af stöðugleikaframlögunum verði varið í fjárfestingar. Það er enginn að tala um það, við erum öll sammála um að stöðugleikaframlögin eigi öll að fara í að greiða niður skuldir. Við erum hins vegar að tala um að hægt sé að afla meiri tekna í þessu samfélagi. Það er hægt að afla meiri tekna, það er búið að afnema auðlegðarskattinn, lækka veiðigjöldin, taka af orkuskattinn, hækka matarskattinn — það allt erum við búin að telja mjög oft upp undanfarna mánuði og a.m.k. sum okkar munu ekki þreytast á því að gera það. Þannig væri hægt að afla meiri tekna til þess t.d. að fara í meiri fjárfestingu eða fara í það að auka hér jöfnuð meira en gert er. Hægt er að fara í að reisa heilbrigðiskerfið betur við en en áætlanir liggja fyrir um að gera.

Þegar við segjum að við hefðum viljað gera þetta öðruvísi þá er enginn að tala um að vera eitthvað óábyrgur og eyða stöðugleikaframlögunum og þar fram eftir götunum. Það er enginn að tala um það, við erum að tala um að við höfum ólíka sýn á ríkisfjármálin og hvernig afla á tekna þar. Hæstv. fjármálaráðherra segir: Það virðist aldrei vera tími til að lækka skatta. Ja, ég er ósammála ráðherranum t.d. í því að lækka beri skatta, eins og hann hefur lagt til með að fara með tekjuskattinn í tvö þrep. Ég er bara ósammála því. Mér finnst ekki tímabært að fækka hér tekjuskattsþrepum.

Síðan verða menn pirraðir og segja til að mynda að auðlegðarskatturinn hafi verið tímabundinn. Já, já, vissulega var hann settur tímabundið á, en þegar eitthvað er sett tímabundið á þýðir það ekki að ekki megi framlengja það ef þörf krefur. Það er enn þörf á því í þessu samfélagi að halda uppi fjárfestingu, eins og nefnt hefur verið. Það er enn þá fátækt í landinu, það er fólk hér undir fátæktarmörkum, ellilífeyrisþegar fá ekki sömu bætur og sömu hækkanir og við hin. Á meðan svo er er ekki tími til að lækka skatta.

Ég vil líka taka það fram að auðvitað þarf að huga að því að umhverfi atvinnuveganna sé gott. Það á ekki að þrengja um of að þeim því að auðvitað eru atvinnuvegirnir ein forsenda þess að við eigum gott líf í þessu landi. En atvinnuvegirnir verða líka að axla sína ábyrgð. Ég bendi á að ferðaþjónustan, sem nú er í miklum blóma sem betur fer, er í lægra virðisaukaskattsþrepinu. Ég tel að atvinnuvegirnir eigi að axla ábyrgð og axla sína byrði, axla hinn samfélagslegan kostnað, (Forseti hringir.) rétt eins og við gerum öll.