145. löggjafarþing — 107. fundur,  3. maí 2016.

fjármálastefna 2017--2021.

741. mál
[19:03]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég ætla aðeins að taka til máls aftur um fjármálaáætlunina. Það er stuttur tími sem við höfum og margt hérna sem þarf að ræða og auðvitað alls ekki tæmandi þó að maður hafi tækifæri á að koma aftur í ræðu.

Mig langar í upphafi að fara í gegnum örfá atriði. Eftir gríðarlegt samdráttarskeið sem varð í kjölfar hrunsins er hér lagt til að sett verði þak á útgjöld til samneyslunnar sem er undir aukinni framleiðni í landinu og hefur hún þó fram til þessa verið í sögulegu lágmarki eins og ég hef áður vikið að. Við eigum sem þjóð að hafa áhyggjur af þessu, við sem aðhyllumst það að heilbrigðisþjónusta og skólamálin verði ekki sett í hendur á einkaaðilum sem því miður lítur út fyrir að taki eða verði falið að taka við hlutverki hins opinbera í auknum mæli nái þessi áætlun fram að ganga.

Það er líka vert að hugsa til þess að við búum við vanfjármagnað kerfi, hvort sem við ræðum fangelsismálin eða löggæsluna. Lögreglumönnum hefur fækkað stórlega og dómskerfið er heldur ekki í lagi, t.d. miður góð aðstaða Héraðsdóms Reykjavíkur en samt er gert ráð fyrir að bæta við millidómstigi sem þýðir 500 millj. kr. viðbótarkostnað á ári, bara í það. Ég hef reyndar efasemdir um að þær tölur standist og tel kostnaðinn verulega vanreiknaðan.

Á bls. 44 kemur fram að tilgangur stefnumiða í skattamálum sé margþættur og sé fyrst og fremst ætlaður til að afla ríkissjóði tekna til að fjármagna rekstur hans. Afkoman hefur verið góð en tímabundnar og einskiptistekjur hafa þó valdið miklu um það. Það er mikilvægt að greina slíka þætti frá þegar þörfin fyrir tekjuöflun í formi skatta til að fjármagna rekstur og önnur nauðsynleg útgjöld ríkisins er metin. Því má segja að skattalækkanir í því árferði sem nú er séu ekki skynsamlegar, og í raun aldrei í uppsveiflu, en á það trúir þó Sjálfstæðisflokkurinn enn og boðar í þessu plaggi.

Bætur til almannatrygginga hækka um 1% umfram verðlag. Eftir mesta samdráttarskeið sögunnar er líka almennt gert ráð fyrir 1% raunvexti í velflesta málaflokkana, t.d. löggæsluna, menntamálin og heilbrigðismálin. Það er alveg ljóst að það dugar ekki til þess að rétta úr kútnum hvað þessa málaflokka varðar.

Það er gert ráð fyrir 3% raunvexti í ellilífeyri sem getur hreint ekki talist nein hækkun, líklega frekar lækkun ef við tökum með hversu hratt öldruðum fjölgar. Og svo verðum við að velta fyrir okkur hvað 3% aukning í S-merktum lyfjum þýðir. Þýðir það að hægt verður að kaupa ný lyf sem einhverju nemur? Um það hef ég efasemdir.

Það kom ekki skýrt fram hjá fjármála- og efnahagsráðherra fyrr í dag hvort 30 milljarðarnir sem setja á í heilbrigðismál á næstu fimm árum innihalda bæði stofnkostnað og rekstur. Ef stofnkostnaður er innifalinn í þessari viðbót er ljóst að vandinn sem við stöndum frammi fyrir í heilbrigðismálum í dag heldur áfram að vaxa og aukinheldur er ljóst að meðferðarkjarninn rís ekki við Landspítala fyrr en undir lok þessarar fimm ára áætlunar ef allt gengur eftir.

Það er líka einungis talað um að vinna að undirbúningi að bættri aðstöðu við Sjúkrahúsið á Akureyri. Engar áætlanir eru um hvenær eða með hvaða hætti á að byggja þar við og þörfin er þó gríðarlega mikil.

Ekki er gert ráð fyrir að greiðsluþátttaka sjúklinga verði minnkuð heldur einungis tilfærslur eins og við höfum verið að ræða hér undanfarið og er það nokkuð sem ég set mig algjörlega upp á móti að verði niðurstaðan hjá ráðherra. Ég vona að við fáum tækifæri til að breyta því.

Stefna Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins er að öryrkjar og reyndar eldri borgarar geti framfleytt sér af tekjum sínum og þurfi ekki lífeyrisgreiðslur frá Tryggingastofnun. Ekki liggur fyrir hvernig ríkisstjórnarflokkarnir hyggist ná þessu því að það er ekki hægt að segja að atvinnulífið hafi verið öryrkjum sérstaklega hagfellt. Það hafnar allt of oft öryrkjum sem hugsanlega geta eitthvað unnið og er tregt til að ráða öryrkja í vinnu.

Metnaðarleysið er algert þegar kemur að fötluðu fólki og atvinnuþátttöku þess, en í þessu plaggi segir meðal annars að atvinnuþátttaka fatlaðra á almennum vinnumarkaði verði efld með fræðslu til atvinnurekenda. Það er bæði algert metnaðarleysi og líka virðingarleysi að það eigi að fræða atvinnurekendur, að það séu úrræðin sem ríkisstjórnin ætlar að hafa uppi á borðum gagnvart atvinnuþátttöku fatlaðs fólks.

Þarna kemur fram líka að leggja eigi áherslu á aðgengi að þjónustu og úrræðum í nærumhverfi barna og unglinga. Hvað þýðir þetta? Hvernig er þetta í praxís? Það kemur ekki fram. Þetta eru góðar hugmyndir sem virðast enga útfærslu hafa fengið.

Þetta er fimm ára áætlun og við höfum heyrt talað töluvert um LÍN. Hver er framtíðarsýnin? Eiga nemendur að geta haft alvöruval um nám úti um allan heim? Hvað með stefnu í skólagjöldum eða framfærslu? Það er mikið látið með að 47% lána séu styrkir og menntamálaráðherra hefur verið duglegur við að halda því fram, en það er vert að halda því til haga að um er að ræða örfáa einstaklinga sem greiða ekki námslánin sín að fullu ýmissa hluta vegna. Langstærsti hluti lánþeganna greiðir hins vegar lánin sín algerlega að fullu. Við þurfum líka að hafa í huga að stefna þess menntamálaráðherra sem nú situr við völd er að framleiða fólk til að sinna atvinnulífinu en ekki til að mennta sig alfarið á eigin forsendum.

Frú forseti. Skuldir heimila hafa að mestu lækkað sem hlutfall af fasteignaverði vegna þess að fasteignaverð hefur hækkað. Skuldaleiðréttingin lækkaði skuldir þeirra sem áttu fasteign. Leigjendur fengu að sjálfsögðu enga skuldalækkun og staða þeirra sem eru í flestum tilfellum láglaunafólk, þó ekki alltaf, fer versnandi. Það þýðir að ójöfnuður hefur aukist gríðarlega.

Í tillögunni er gert ráð fyrir að Íbúðalánasjóði verði lokað, enda hefur þessi ríkisstjórn haft horn í síðu hans frá upphafi. Ekki er neitt um það sagt hvað taka eigi við eða hvernig koma á til móts við íbúa á landsbyggðinni sem oft hafa ekki getað leitað annað eftir lánsfjármagni.

Í byggðamálum er farið yfir söguna en afar lítið er um tillögur til úrbóta fyrir landsbyggðina. Það á að leggja fram þingsályktunartillögu að nýrri byggðaáætlun á næsta ári en ekkert er farið yfir hverju þar á að taka á enda hefur ríkisstjórnin farið fram hjá sóknaráætlunum, fyrst með því að ætla að slá þær af, síðan með því að leggja í þær lítið fé og eftir bardaga að bæta örlítið við, en síðasta verkið var að setja nokkra þingmenn meiri hlutans í að útbúa og ákveða hvaða verkefni ættu að fara fram í einu tilteknu kjördæmi fram hjá öllum hefðbundnum verkferlum. Það er kannski það sem koma skal í byggðamálum, að einhverjir þingmenn ákveði hvaða verkefni séu skynsamlegust.

Hvað með að gera eitthvað með tillögur starfshópsins sem fjallaði um innanlandsflugið þannig að fólk í hinum dreifðu byggðum geti raunverulega nýtt sér flugið sem almenningssamgöngur? Talandi um hagkvæmni og sparnað, viðhald á flugvellinum í Neskaupstað, svo dæmi sé tekið, ætti að vera borðleggjandi þar sem allt of oft þarf að flytja sjúklinga fram og til baka í bíl og í sjúkraflugi frá Egilsstöðum sem skapar áhættu, óþægindi og mikinn kostnað.

Hröð fjölgun ferðamanna hefur mikil áhrif á þörf fyrir þjónustu, rekstur og viðhald samgöngumannvirkja. Stefna stjórnvalda er hér sögð vera að tengja byggðir og samfélög og Ísland við umheiminn með því að styrkja búsetu og samkeppnishæfni einstakra svæða og landsins alls þannig að þau standist samanburð í lífsgæðum. Sú áætlun sem hér liggur fyrir sem og samgönguáætlun sem lögð hefur verið fram taka ekki á þessu með nokkrum hætti og við getum ekki annað en verið afar ósátt við það.

Kapítalið gengur ekki upp, þ.e. að lágir skattar verði til þess að hér blómstri atvinnulífið og fólk hafi almennt meira á milli handanna. Það höfum við fengið að sjá og heyra undanfarið þar sem fyrir hrun voru til dæmis fjármagnstekjuskattar í lágmarki, eitthvað í kringum 10%, og samt fóru menn með arðinn í skattaskjól. Það er nefnilega svo, frú forseti, að hinir ríku passa alltaf sitt. Þetta er eitt af því sem er inntakið í þessari áætlun, misskiptingin sem við teljum felast í skattapólitíkinni og öðru því sem hér birtist.