145. löggjafarþing — 107. fundur,  3. maí 2016.

ný skógræktarstofnun.

672. mál
[19:57]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég hef oft dáðst að snerpu Framsóknarflokksins við að krafsa sig út úr vandræðum, en þó hef ég aldrei séð annan eins vaskleika og áðan þegar kom fram hversu gríðarlega góð samvinna er á millum þingmanna Framsóknarflokksins þegar einn þeirra lenti í því óláni í ræðustól að síminn hans hringdi og óðara þeytti hann símanum út í loftið og þar kom hv. 1. þm. Norðaust. og greip hann á lofti. Þetta var lífsreynsla sem ég hefði ekki viljað vera án og verð að segja að ég hef sjaldan séð menn vera jafn snögga til þess að koma sér upp úr pyttinum og hér.

En þetta er nú hin notalegasta umræða og varð m.a. tilefni míns góða vinar, hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, til að rifja upp partí sem hann getur ekki gleymt frá því fyrir 25 árum síðan. Ég segi það nú, hafandi verið í mörgum mannfögnuðum með hv. þingmanni sem er einn mestur gleðimaður sem ég hef á dögum verið með, að mikið sé ég eftir því að hafa ekki verið kominn til þeirra mannvirðinga á þeim tíma að hafa getað tekið þátt í þeim mikla fagnaði, sem ég ætla nú ekki að rifja upp fyrir hv. þingmanni en var ekki jafn mikið fagnað alls staðar. En þar sem þeir hafa þá verið saman, Jón Loftsson og hv. þingmaður, trúi ég að hafi verið kátt á hjalla.

Hér hafa menn líka nánast fallið grátbólgnir um hálsinn hver á öðrum, einkum þó framsóknarmenn, og óskað hver öðrum til hamingju með að hafa bjargað skógræktinni. Þegar maður rekur sig eftir þeim ræðum kemur í ljós að það er hv. þm. Líneik Anna Sævarsdóttir sem segja má að hafi með glæsilegum fræknleik sínum í forustu nefndarinnar, sem vann þetta frumvarp, eiginlega bjargað því og þá vil ég ekki vera öðrum mönnum síðri hér. Ég hef átt afskaplega gott samstarf við hv. þingmann um flest nema skógrækt, en ég vil eigi að síður óska Framsóknarflokknum til hamingju með hana og henni til hamingju með flokkinn og öllum til hamingju með þennan mikla áfanga. Ég kem hér aðallega upp sem talsmaður landbúnaðarvængs Samfylkingarinnar til að lýsa því yfir að ég tel að þetta sé hið besta mál og mun styðja það af öllum þeim vaskleik sem mér er búinn.

En án nokkurs gríns, því að þetta er náttúrlega stund alvöru, er ég þeirrar skoðunar að hér sé verið að stíga mjög heilladrjúgt skref. Mér hefur alltaf verið raun að því að sjá skógræktina í þessum litlu pörtum, þ.e. annars vegar nokkuð volduga stofnun á íslenskan mælikvarða og síðan þessi landshlutaverkefni sem mér hefur þótt á köflum hálfmunaðarlaus og ekki getað náð þeirri samlegð sem felst í því að starfa í skjóli móðurstofnunar eins og Skógrækt ríkisins hefur vitaskuld verið. Það þekki ég manna best, hafandi farið með framkvæmdarvald, að þar hafa ráðið fyrst og fremst smákóngasjónarmið í héraði. Ég tel því að þetta sé ákaflega gott skref sem hæstv. ráðherra er hér að taka eins og í svo mörgum öðrum efnum og eins og ég sagði mun ég styðja það eftir megni.

Ég vil líka taka undir með hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni sem hér talaði áðan um að það eru töluvert miklu meiri möguleikar í skógrækt en menn töldu hér í árdaga. Ég verð að gera þá játningu að ég var sjálfur í þeim hópi, á mínum sokkabandsárum í stjórnmálum, sem taldi að ekki væri eftir miklu að slægjast. En ég hef aflað mér þekkingar og lesið mér til um þetta og farið á fundi, fyrir nú utan það að ég hef setið með alls konar landbúnaðarpostulum í landbúnaðarnefndum Alþingis í gegnum tímann, og það sem kemur mér kannski mest á óvart er að Ísland er þrátt fyrir sína hnattstöðu ekki eitt á þeim báti að hafa verið norðlæg þjóð nánast án skógar. Við sem heimsótt höfum grannlönd okkar eins og Skotland og Írland höfum þá ímynd að þau séu skógi vaxin, þetta eru græn lönd, en fyrir 150 árum voru þau á svipuðu stigi og Ísland er í dag og hefur verið svona fram á þessa daga. Þar höfðu menn rutt skóga, eytt þeim, notað til eldiviðar í köldum árum og skógar hurfu. Það tók 90–100 ár að græða aftur upp og rækta þá skóga sem við sjáum núna gefa af sér mikil verðmæti í þessum löndum. Það sama er hægt að gera á Íslandi.

Eins og alls staðar annars staðar þarf tvennt til. Það þarf stundum atbeina ríkisins til að hjálpa nýrri grein til þess að staulast af stað og fikra sig fyrstu sporin og vitaskuld var það hlutverk ríkisins að leggja til fjármagnið til þess að koma skógrækt í það horf á Íslandi að geta átt von til þess að verða atvinnugrein. Nú tala menn um skógarauðlindina. Hitt sem þarf líka eru rannsóknir. Það er sú stoð sem menn hafa af vísindunum. Það verður að segjast eins og er að Skógrækt ríkisins og reyndar ýmsar stofnanir sem henni tengjast, háskólastofnanir sem hafa átt í samvinnu við hana, hafa unnið alveg stórkostlegt starf á þessu sviði. Ég held að í dag séum við komin í þá stöðu að reynslan sýnir, eins og hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson og fyrrverandi landbúnaðarráðherra röktu áðan, að menn eru byrjaðir að fletta við, menn eru byrjaðir að skapa beinhörð verðmæti úr því sem margir í árdaga töldu að gæti aldrei orðið að nokkurri atvinnugrein. Menn tala um skógarauðlindina í dag.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, fyrir utan að segja alveg óborganlega, að ég ekki segi ódauðlega, sögu af nóbelsskáldinu sem hafði djúpa tvöfalda, jafnvel þrefalda, merkingu benti á það, eins og reyndar að ég hygg hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson, að tímatal skógræktarinnar er allt annað en nokkurra annarra greina. Þar hugsa menn og leggja áætlanir ekki bara í tugum ára heldur kannski í öldum. En samt er staðreyndin sú að það sem frumkvöðlar skógræktar sem atvinnugreinar á Íslandi sögðu í upphafi hefur allt gengið eftir. Skógræktin er í dag komin á þann stað sem menn höfðu spáð og eftir 40–50 ár verður hún farin að skila töluverðu magni af auði inn í samfélagið. Það sem skiptir kannski meira máli er sú staðreynd að skógrækt sums staðar hefur orðið til þess að styrkja gisnar byggðir. Ef það er einhver byggð sem mér þykir vænna um en aðrar er það náttúrlega minn ástkæri Dýrafjörður. Þar er skógrækt einmitt að komast á legg og sætir undrum hversu vel sú grein hefur þar tekið við sér. Ég vonast eftir því að svona í þann mund sem mínir fætur hafa kaldir verið hugsanlega í nokkurn tíma, þá skipti það máli á þeim stað, á fjörðum vestur, að menn höfðu burði og frumkvæði að því að ráðast í skógrækt.

Það sem skiptir máli fyrir okkur þegar við erum að hugsa um nýjar atvinnugreinar í dag á Íslandi þar sem ríkir velsæld, þar sem er nóg atvinna, er að velta því fyrir okkur hvaða atvinnugreinum er hægt að koma á legg sem geta úti um landið treyst gisnar byggðir, treyst veikar byggðir, vegna þess að Ísland er lítils virði nema það sé í byggð. Hér talar eðalkrati, og þeir hafa nú ekki alltaf verið þekktir fyrir það að elska landbúnað út af lífinu, en ég segi það: Ástæðan fyrir því að ég er reiðubúinn til þess að styðja að skattborgarar styrki landbúnað og ástæðan fyrir því að ég hef verið reiðubúinn til þess að ljá minn atbeina að því að ríkið komi til stuðnings skógrækt er nákvæmlega þessi, að það skýtur nýrri stoð undir veikar byggðir. Til einhvers er þá lifað ef menn hafa þá á sínum ferli stutt slíkt.

Ég er þeirrar skoðunar að það skref sem hér er stigið hjálpi mjög til vegna þess að það eflir þrótt greinarinnar að búa til eina stofnun í kringum skógræktina, sameina móðurstofnunina við þessi litlu munaðarlausu verkefni sem í reynd hafa verið allt of lítil til þess að geta staulast áfram, a.m.k. farsællega til framtíðar. Það er miklu betra að hafa þetta svona. Þetta er hugmynd sem lengi hefur verið á kreiki. Ég hef náttúrlega í ræðu minni farið svo svakalega fögrum orðum um Framsóknarflokkinn að rétt er að rifja líka upp að þegar menn voru á síðasta áratug að tala um nákvæmlega þetta, að sameina skógræktina og landshlutaverkefnin, voru það helst einstöku framsóknarmenn sem risu upp, m.a. í þessum sölum, og brúkuðu furðu mikinn munn til þess að mótmæla því. Þeir voru ekkert betri en ýmsir sjálfstæðismenn í því að halda við merki smákónganna.

En eins og ég segi núna í annað skipti á þremur dögum er batnandi flokkum best að lifa og Framsóknarflokkurinn er þrátt fyrir allt að batna, a.m.k. í þessum efnum. Þá segi ég, af því að ég er náttúrlega maður Jónasar frá Hriflu, það er vel, (Gripið fram í.) því að eins og ég hef alltaf sagt og lýk öllum ræðum mínum um Framsóknarflokkinn, þó að þessi eigi nú að heita að vera um skógrækt líka, [Hlátur í þingsal.] þá er það þannig að Framsóknarflokkurinn má ekki gleyma því til hvers hann var stofnaður. Þó að herleiðing hans í björg íhaldsins standi nú yfir eins og svo sorglega oft áður, þá var hann stofnaður af Jónasi frá Hriflu til þess að búa til samvinnu smábænda og fulltrúa verkamanna á mölinni. Það er komið mál til þess að hæstv. umhverfisráðherra og allir hv. þingmenn hér, og sérstaklega hv. 1. þm. Norðaust., geri sér grein fyrir því hvert erindi þeirra upphaflega var í stjórnmálum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)