145. löggjafarþing — 108. fundur,  4. maí 2016.

dagsetning kosninga.

[15:06]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Þegar stjórnarflokkarnir ákváðu að halda samstarfi sínu áfram á grundvelli þess meiri hluta sem er að finna í þinginu þrátt fyrir að breytingar hafi orðið í forsætisráðuneytinu og mynduð var ný ríkisstjórn, var tekið fram að þessi stjórn hygðist ljúka ákveðnum verkefnum sem hún hefur verið að vinna að í allan vetur og mál liggja fyrir í öllum nefndum. Spurt er um einstök mál og er þá rétt að nefna sérstaklega afnám gjaldeyrishafta, ég kem hingað beint af fundi einmitt um það mál. Þess er að vænta að fram komi frumvarp á þinginu um það. Sagt var að þegar þeim verkefnum væri lokið hygðust flokkarnir ganga til kosninga. Við sögðum að það gæti orðið í haust. Samkvæmt því kæmi nýtt þing ekki saman í haust. Ég sé ekki annað en að við mundum samkvæmt þessu þurfa að breyta samkomudegi þingsins með vísan til þess að kosningar væru fram undan og að nýtt þing kæmi þá saman að þeim afstöðnum.

Menn hafa mikið kallað eftir því að fá fastákveðið hvenær kosið verður. Við höfum átt marga fundi með stjórnarandstöðunni um það og við höfum alltaf fært fram sömu skilaboðin. Við erum að tala um haustið á þessu ári, október hefur oft verið nefndur, en við höfum líka tekið það skýrt fram að við þyrftum að hafa vissu fyrir því að ekki væri óeðlilegt ástand í þinginu, að mál þyrftu að hafa framgang hér. Að því öllu virtu sé ég það gerast þannig að kjörtímabilið styttist í raun um eitt löggjafarþing, en það er háð þeim aðstæðum og þeim fyrirvörum sem ég hef hér nefnt.