145. löggjafarþing — 108. fundur,  4. maí 2016.

skipan stjórnar Orkubús Vestfjarða.

[15:11]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil ræða við hæstv. fjármálaráðherra um stjórnarskipan í Orkubúi Vestfjarða. Ég ræddi hér í gær skipan stjórnar í opinberum hlutafélögum, með hvaða hætti þær stjórnir væru skipaðar og að það væri mjög mjög mismunandi. Ég spyr hæstv. ráðherra hvernig hann hyggist skipa í stjórn Orkubús Vestfjarða ohf. sem heldur aðalfund sinn 12. maí nk. Einnig vil ég bera það undir hæstv. ráðherra hvort lög um opinber hlutafélög hafi verið brotin þegar hæstv. ráðherra skipaði einungis einn varamann í stjórn Orkubús Vestfjarða. Ég vil heyra frá honum hvað þar var á ferðinni, hvort lög hafi verið brotin og hvernig hann hyggist bregðast við því. Ég vil líka ræða um það við hæstv. ráðherra hvort hann sjálfur og hans ráðuneyti hafi tekið upp sjálfstæða skoðun á stjórnarháttum hjá Orkubúi Vestfjarða. Það hefur verið mikil gagnrýni á stjórn Orkubúsins varðandi ráðningu orkubússtjóra og aðra tiltekna þætti. Stjórnarmaður hefur sagt af sér og gagnrýni hefur komið fram hjá varamanni stjórnar, sem taldi sig vera varamann en svo kom annað í ljós og hann var ekki boðaður á fund.

Ég vil fá fram viðhorf hæstv. ráðherra gagnvart þessum þáttum og hvort sjálfstæð skoðun á vegum ráðuneytisins sé í gangi heilt yfir um stjórnunarhætti innan stjórnar Orkubúsins í dag.