145. löggjafarþing — 109. fundur,  10. maí 2016.

fjármögnun heilbrigðiskerfisins.

[13:58]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég kem hér upp til þess að ræða fjármögnun heilbrigðiskerfisins við hæstv. heilbrigðisráðherra. Í velferðarnefnd liggur frumvarp frá hæstv. ráðherra og er nú í umfjöllun um sjúkratryggingar, greiðsluþátttöku og þjónustustýringu. Þarna er um tvær kerfisbreytingar að ræða, annars vegar breytingu á greiðsluþátttökukerfi og hins vegar innleiðingu þjónustustýringar.

Segja má segja að annars vegar lýsi umsagnaraðilar yfir áhyggjum af því að þakið verði of hátt, það er 95 þús. kr. fyrir almennar greiðslur, og að um 120 þúsund manns muni bera hærri heilbrigðiskostnað ef ekki verður aukið fjármagn inn í greiðsluþátttökukerfið. Því ber að halda til haga líka að almennt er því fagnað að verið sé að innleiða nýtt greiðsluþátttökukerfi en um leið sagt að það sé ekki hægt að gera nema bæta inn fjármunum. Hins vegar er um þjónustustýringu að ræða og þar hafa ýmsir læknar komið með efasemdir. Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu lýsir yfir stuðningi við þessa kerfisbreytingu en telur sig ekki geta sinnt verkefninu vegna fjárskorts. Það ágæta frumvarp sem nú er til umræðu, sem boðar breytingar sem gætu verið til góðs fyrir heilbrigðiskerfið, líður fyrir þennan fjárskort í heilbrigðisþjónustunni og af lestri fjármálaáætlunar ríkisstjórnarinnar er ekki að sjá að sagt sé beinum orðum að taka eigi á því.

Þar af leiðandi verð ég að spyrja hæstv. ráðherra, til að geta (Forseti hringir.) tekið afstöðu til málsins: Hyggst hann tryggja fjárveitingar til að lækka greiðsluþátttöku og til að fjármagna heilsugæsluna?