145. löggjafarþing — 109. fundur,  10. maí 2016.

meðferð sakamála.

659. mál
[17:46]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að ég er pínulítið smeykur við að hafa pólitíska aðkomu að einhverju sem mér finnst í grundvallaratriðum eiga að tilheyra öðrum hluta valdsins. Án þess að ég ætli endilega að segja að það sé sambærilegt þá leiði ég hugann að því hvernig það væri ef pólitísk aðkoma eða eftirlit væri með því hvernig menn eru dæmdir í rétti. Mér finnst þetta í grunninn vera spurning um réttindavernd borgaranna. Ég hefði haldið að það væri frekar hlutverk dómstóla og skyldra aðila eða sjálfstæðrar stofnunar, eða hvernig sem það er útfært nákvæmlega, frekar en beinlínis kjörinna fulltrúa. Það er af sömu ástæðu og mér finnst mikilvægt að þingmenn séu ekki í því að dæma menn vegna þess að það leiðir af sér alls konar tortryggni og pólitík sem á ekkert heima þar heldur á bara heima í þeirri spurningu hver réttindi einstaklingsins eru og hvernig þau eru best tryggð. Ég er alveg sannfærður um að það eigi ekki að vera pólitísk aðkoma.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann mundi þá vilja hafa þetta þannig að það væri í það minnsta bæði, að þetta eftirlit væri lagskipt; annars vegar væri um að ræða stofnun eða nefnd, eins og hæstv. innanríkisráðherra leggur til á eftir, eða sjálfstæða stofnun eða umboðsmann Alþingis. Ég spyr, hvernig sem það væri útfært stofnanalega, hvort ekki sé betra að slíkt eftirlit sé líka til staðar frekar en að eingöngu sé um að ræða pólitískt eftirlit. Ég yrði mjög hræddur ef einungis yrði um pólitískt eftirlit að ræða vegna þess að um leið og pólitíkin er komin inn í þetta þá eru menn farnir að spyrja alls konar spurninga og geta farið mjög langt út fyrir rammann. Þegar kemur að réttindum borgaranna þá vil ég ekki fara langt út fyrir rammann eða reyndar helst ekki neitt yfir höfuð.