145. löggjafarþing — 110. fundur,  12. maí 2016.

störf þingsins.

[11:01]
Horfa

Jóhanna María Sigmundsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Nú eru aðeins tveir dagar frá því að við ræddum í þessum sal öryggi ferðamanna. Færst hefur í aukana að fyrirtæki hvetji ferðamenn til að ferðast um Ísland yfir vetrartímann á bílum sem hafa jafnvel svefnaðstöðu en eru ekki búnir undir fjallvegi, mikinn snjó eða jafnvel mikla hálku og það veðravíti sem oft getur verið hér á landi. Það er lítið um aðstöðu fyrir þá sem ferðast um á slíkum bílum til að stoppa næturlangt. Fyrir valinu verða því oft afleggjarar, bæði heim að bæjum og inn á tún, og plön, m.a. við útsýnisstaði og á almennum ferðamannastöðum.

Það er mjög alvarlegt að svo virðist sem þessir ferðamenn fái mjög villandi upplýsingar frá þeim sem skipuleggja slíkar ferðir. Það kemur oft í hlut hins almenna borgara að þurfa að leiðrétta þann misskilning en stundum þurfa menn að vísa fólki burt af landareign sinni og útskýra fyrir því að ekki megi vaða um eignarland, keyra um tún o.s.frv.

Það snertir öryggi ferðamanna að gefa þeim réttar upplýsingar þegar þeir koma til landsins; gefa þeim upplýsingar um þá aðstöðu sem býðst og útskýra fyrir þeim þau lög sem eiga við. Þetta er dæmi um að við erum að missa yfirsýnina yfir þá miklu ferðamennsku sem orðin er á Íslandi. Rökin með ferðamennsku eins og ég nefni hér, á þessum bílum, hafa verið þau að hótel séu oft uppbókuð, en við þurfum þá að gæta þess að þessir aðilar séu ekki á ferð við aðstæður sem við Íslendingar mundum jafnvel ekki leggja út í.

Ég tel að við þurfum að setja á fót betra eftirlit með þeirri ferðaþjónustu sem verið er að koma af stað og þeirri nýsköpun sem í gangi er. (Forseti hringir.) Þó að það sé gott að skapa atvinnu þá megum við ekki leggja líf fólks að veði.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna