145. löggjafarþing — 111. fundur,  17. maí 2016.

lækkandi fæðingartíðni á Íslandi.

[13:59]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Ég ítreka það sem ég sagði áðan að komið hefur mjög skýrt fram að fyrirhugað er að hækka þakið. Jafnframt er unnið að lagabreytingum sem snúa að því að fara í þær tillögur sem nefnd á mínum vegum kom með um að gera ákveðnar breytingar á greiðslu fæðingarorlofsins þannig að hægt sé að fá allt að því 300 þús. kr. 100% til þess að mæta tekjulægri foreldrum. Meginþorri þess fólks sem tekur fæðingarorlof er, eins og fram kom hjá hv. þingmanni, ungt fólk sem er með lægri tekjur.

Síðan eru líka tillögur sem snúa að því að fara í lengingu á fæðingarorlofinu. Sveitarfélögin hafa líka verið að gefa ákveðnar meldingar um að þau hafi í hyggju að tryggja börnum leikskólapláss frá 12 mánaða aldri þó að miðað hafi verið við 18 mánuði.

Þetta er allt í bígerð og það kemur einmitt skýrt fram í ríkisfjármálaáætluninni sem þegar hefur verið dreift og er komin til fjárlaganefndar.

Varðandi aðra þætti sem þingmaður nefndi hér, varðandi ráðstöfunar- og atvinnutekjur ungs fólks, er það rétt að fram hefur komið að þær hafi ekki fylgt þeim hækkunum sem orðið hafa. Hins vegar lét ég skoða það sérstaklega og kynnti niðurstöður fyrir ríkisstjórn og geta hv. þingmenn fundið þær upplýsingar á bloggsíðu minni. Þar kemur fram að þrátt fyrir þetta sjáum við líka að ungt fólk segist eiga auðveldara með að ná endum saman en áður. Færri búa við skort á efnislegum gæðum en fyrir tíu árum síðan. Það virðist tengjast ákveðnum lífstíls- eða samfélagsbreytingum hjá ungu fólki. Það er lengur í námi, býr lengur heima, stofnar seinna fjölskyldu, eignast börnin seinna, þannig að við sjáum þarna mjög mikla breytingu (Forseti hringir.) á því tímabili sem þarna er verið að skoða. Ég velti fyrir sér hvort við fylgjum nágrannaþjóðum okkar eftir í því efni því að við höfum séð sambærilegar samfélagsbreytingar þar.