145. löggjafarþing — 111. fundur,  17. maí 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[15:02]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er náttúrlega alveg ljóst að þegar menn gera samninga þá er verið að skuldbinda sig með ákveðnum hætti. Það er líka alveg ljóst að hver ríkisstjórn hlýtur að geta ákveðið það í fjárlögum með einhverjum öðrum hætti hvort hún vill leggjast í að óska eftir breytingum á samningnum eða eitthvað þess háttar. Mér fyndist hins vegar svolítið sérkennilegt að gera það, alla vega án einhvers konar aðlögunar eða umræðu. Síðan má ekki gleyma því að í samningunum er gert ráð fyrir tveimur endurskoðunum, eins og ég sagði áðan, 2019 og 2023, og það gefur að sjálfsögðu ríkisvaldinu á þeim tíma tækifæri til að setjast yfir samningana.

Það er hins vegar alveg rétt hjá hv. þingmanni að okkur greinir greinilega mjög á um þessa samninga og í rauninni held ég að það hljóti að vera þannig varðandi atvinnugreinina í heild þar sem í þessum samningi er verið að gera líklega mestu breytingar sem gerðar hafa verið í áratugi, einmitt grundvallarkerfisbreytingar eins og ég held að hv. þingmaður hafi orðað það í sinni ræðu. Mér þykir leitt að hv. þingmaður telji þetta ekki nægar breytingar, (Forseti hringir.) en þær eru gríðarlegar.