145. löggjafarþing — 111. fundur,  17. maí 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[15:18]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Nú er vont að hafa ekki gömlu þingsköpin og almennilegan ræðutíma. Að sjálfsögðu er það þannig að margt sem menn ætla sér með þessum samningum er góðra gjalda vert. Það er líka rétt að menn eru að reyna að takast á við ágalla sem fylgt hafa framkvæmd núverandi kerfis, einkum hin síðari árin, og ber þar auðvitað hæst það sem hefur verið mikið umtalað, þ.e. hátt verð sem myndaðist um tíma á mjólkurkvóta þar sem starfandi bændur í greininni og þeir sem voru að auka við sig urðu að kaupa sér framleiðslurétt nokkuð dýrum dómum. Bankar fjármögnuðu þetta í veisluhöldunum og margir hlóðu á sig miklum skuldum vegna þessa.

Þetta vandamál var miklu síður til staðar í sauðfjárræktinni og í raun og veru ósanngjarnt að bera þetta tvennt saman. Þar var framleiðslurétturinn á mun lægra verði og þessi vandamál ekki stórfelld.

En þá kemur að því hvaða aðferðir eru bestar til að takast á við slíkt. Þar skilur leiðir með mér og þeim sem ætla að standa að þessum samningi, þótt ég geti tekið undir að ýmislegt annað í honum er jákvæð viðleitni, þótt allt sé það nú frekar veikburða sem snýr t.d. að því að greiða fyrir nýliðun, styðja lífræna ræktun eða efla framtíðarsýn af því tagi, í jarðrækt eða kynbótum eða öðru slíku.

Ég er ekki í þeim hópi sem sér ofsjónum yfir stuðningi ríkisins við innlendan landbúnað. Hann hefur farið mjög hratt lækkandi hlutfallslega miðað við þjóðarframleiðslu á undanförnum árum. Beinn stuðningur ríkisins er núna um 0,5–0,7% af vergri landsframleiðslu og jafnvel þótt tollverndin sé tekin og umreiknuð í stuðning dregur það varla upp í 1,5% af vergri landsframleiðslu, hlutfall sem var kannski 5% fyrir 15–20 árum þegar það var hæst. Það er þjóðhagslega ekki stórt mál eins og ætla mætti af sumum ræðum, að hér sé um að ræða botnlausa hít sem sogi til sín stóran hluta af skattfé landsmanna. Svo er ekki. Kerfið var dýrt og það varð gjaldþrota og það var enginn pólitískur stuðningur við það eins og það var á árunum fyrir 1990, þegar hér var bullandi offramleiðsla í gangi, menn fluttu út hluta framleiðslunnar með beinum útflutningsuppbótum úr ríkissjóði og allur stuðningur var brostinn við að íslenskir skattgreiðendur stæðu þannig undir því að lækka vöruverð til neytenda á alþjóðlegum markaði. Vonandi ætla menn aldrei inn á þá braut aftur. En við skulum nú sjá til.

Það sem ég vil gagnrýna hér í stikkorðum, tímans vegna, er í fyrsta lagi vinnan við gerð þessa samnings. Hún var of lokuð og of þröngt pólitískt einangruð við Framsóknarflokkinn, bæði í Stjórnarráðinu og forustu Bændasamtakanna. Það leiddi til mikillar gagnrýni meðal bænda eins og við vitum og nánast uppreisnar í tilviki kúabænda þar sem grasrótin náði reyndar að knýja fram verulegar breytingar á lokaspretti málsins.

Þá eru það fyrirhugaðar breytingar sem fela í sér afnám á beingreiðslum til bænda. Þær leystu af hólmi niðurgreiðslur á smásölustigi árið 1991 og hafa hjálpað bændum, ekki síst sauðfjárbændum, mikið. Þær hafa í mörgum tilvikum verið einu peningarnir, einu fjármunirnir sem þessar tekjulágu fjölskyldur hafa séð, mánaðarlegar ávísanir úr ríkissjóði í formi beingreiðslna. Sömuleiðis var tekið upp greiðslumark og það miðaði við það sem selst hafði á innlendum markaði árið á undan eða í grófum dráttum það. Það var ákveðið 1991 að leggja af útflutningsuppbætur, að beina stuðningnum beint til bænda og draga úr kostnaði á framleiðslustigi þannig að milliliðir gætu ekki hirt þær greiðslur og stuðla þannig að hvoru tveggja í senn, bæta kjör bænda og lækka vöruverð til neytenda á innlendum markaði. Nú virðist þetta allt saman vera gleymt. Þetta var tengt þjóðarsáttinni þar sem bændur og landbúnaðurinn lögðu mikið af mörkum til að hægt væri að ná þeim samningum og ná niður verðbólgu með því að afsala sér fyrir fram annars boðuðum hækkunum á búvörum. Menn muna kannski eftir frægum myndum þar sem formaður Stéttarsambands bænda var á milli þeirra Einars Odds Kristjánssonar heitins og forseta ASÍ þegar þeir voru að skrifa undir samninga.

Það sem ég hef mestar áhyggjur af er að nú á að sökkva þessari aðgreiningu innanlandsmarkaðarins og þess sem hann þarf og stuðningi ríkisins þar við. Það má að vísu segja að það hafi að hluta til gerst í framkvæmdinni á undanförnum missirum þegar sauðfjárbændur afnámu útflutningsgildi og þegar mjólkuriðnaðurinn fór að borga fullt verð fyrir alla framleidda mjólk. En það hefur ekkert með grundvallarfyrirkomulagið að gera að öðru leyti og það gæti áfram staðið fyrir sínu, að geta fullvissað íslenska neytendur og íslenska skattgreiðendur um að stuðningurinn við landbúnaðinn kemur þeim beint til góða og er ekki hugsaður fyrir aðra.

Það gefur augaleið að þegar stuðningskerfinu er breytt úr núverandi fyrirkomulagi og yfir í það að greiða fast með hverju framleiddu kílói af kjöti og hverjum framleiddum lítra af mjólk og greiða fast fyrir hvern ásettan grip, þá er kominn tvöfaldur framleiðsluhvati inn í það stuðningskerfi. Það er augljóst mál. Hvernig ætla menn þá að tryggja sig fyrir því að þetta leiði ekki út í framleiðslusprengingu verðlækkunar og þrenginga á markaðnum hér og þeirrar nauðungar að menn verði að flytja umframframleiðsluna út með misgóðum árangri? Hverju ætla menn að svara skattgreiðanda eftir fimm eða átta ár eða ræðumanni hér úr þessum ræðustóli sem spyr: Hvað mikið af beinum stuðningi ríkisins fer de facto í útflutningsuppbætur? Það verður ekki hægt að aðgreina það. Það eina sem menn geta sagt er: Ja, gripagreiðslur eru svona miklar og beintengdi framleiðslustuðningurinn er svona mikill. Jú, 30–40% af þessu eru flutt út, ergo, sem ígildi þess af stuðningnum sem fer í reynd úr landi.

Ég hef líka áhyggjur af því að hættan á aukinni framleiðslu, segjum t.d. talsverðri framleiðslusprengingu eða ásetningssprengingu í sauðfjárrækt, muni valda óþörfum núningi hvað varðar landnýtingu og umhverfissjónarmið. Ef ásettu sauðfé fjölgaði nú allt í einu um 150 þús. fjár og segjum að sú fjölgun yrði ekki á þeim svæðum þar sem ástand beitarlands er best, heldur jafnvel í gosbeltinu, er þá ekki hætt við árekstrum? Jú, ég er ansi hræddur um það. Og það undarlega er að þessi sauðfjársamningur kemur verst út fyrir grónustu sauðfjárræktarhéruð landsins, Strandasýslu, Dali, norðvestanvert landið, norðausturhornið, Skaftafellssýslu. Fyrir liggja mjög vandaðar úttektir sem bændur hafa sjálfir ráðist í sem sýna að stuðningur við sauðfjárbændur í Strandasýslu eða Norður-Þingeyjarsýslu lækkar um 19% að raungildi á samningstímanum. Það er talsvert fyrir tekjulágt fólk að horfa framan í þá framtíð. Það gerist auðvitað með því að innbyggð er 1% rýrnunarkrafa í samninginn á hverju ári. Það gerist með því að 0,7% ásetningarregla hverfur, en sumir á þessum svæðum hafa nýtt sér hana. Það gerist með tilflutningi milli svæða og af fleiri ástæðum.

Þá eru það verðtryggingarákvæði þessa samnings, en margir hafa farið mikinn yfir því að þetta sé allt saman svo vel verðtryggt. En hvernig er það verðtryggt? Það er miðað við verðlagsþróun. Það er miðað við neysluverðsvísitölu. En hér erum við að ræða auðvitað um í reynd hluta af kjörum bænda. Þetta er ekki verðtryggt með launavísitölu, launaþróun. Nei, bændur eru þá vonandi eina stéttin í landinu sem næstu tíu árin ætlar að afsala sér allri kaupmáttaraukningu hvað varðar þennan u.þ.b. helming af þeirra tekjum sem hefur komið út úr búvörusamningunum. Hvernig verður kaupmáttur til, hæstv. ráðherra? Er það ekki þegar launin hækka meira en verðlagið? Þegar launavísitalan hækkar umfram neysluverðsvísitölu, þá verður raunveruleg kaupmáttaraukning. En hér er ekki samið um það, nei. Hér er þessi stóri launapóstur bænda verðtryggður með neysluverðsvísitölu. Ergo: Verði áframhaldandi góð þróun í kaupmáttarmálum landsmanna og kaupmáttur eykst að raungildi jafnt og þétt næstu tíu árin, þá verður það vegna þess að launavísitalan hækkar meira en neysluverðsvísitalan. Bændur eiga ekki að fá neitt út úr því hvað þennan hluta varðar. Er það ekki þannig að 40–50% af launum bænda, sérstaklega sauðfjárbænda, hafa komið beint út úr búvörusamningum? Og kannski í raun og veru þau öll vegna þess að innleggið hefur varla dugað fyrir breytilegum kostnaði.

Ég gagnrýni líka skort á umhverfisvitund í þessum samningi. Hvernig stendur á því að ríkisstjórnin sem skrifaði undir Parísarsamkomulagið fyrir nokkrum mánuðum ætlar svo að gera stóran rammasamning við landbúnaðinn og bændur til tíu ára og þess sér hvergi stað að menn ætli að gera einhvern skurk í því? Af hverju er ekki byggt inn í þennan samning stórátak í landgræðslu, skógrækt, endurheimt votlendis? Af hverju er ekki byggt inn í þennan samning átak í orkuskiptum í landbúnaði þar sem menn gætu eftir atvikum reist heimavirkjanir, menn gætu rafvætt vélaflotann hjá sér, lyftara í útihúsunum og smærri tæki? Það væri hægt að gera stórátak í því að gera landbúnaðinn grænni og sjálfbærari.

Við vinstri græn gagnrýnum það hversu mikill skortur er á umhverfishugsun í samningnum, og ósköp linkulega tekið á því litla sem þar er eins og lífrænni ræktun. Tengingin við neytendur er eiginlega týnd í þessum samningi með kerfisbreytingunni þegar skattfé verður farið að renna til framleiðslu sem fer til útlanda. Í raun er skortur á almennri framtíðarsýn allt of tilfinnanlegur í samningnum, verð ég einfaldlega að segja. Mér finnst vanta framtíðarsýn og metnað fyrir hönd íslensks landbúnaðar í samningnum.

Hvernig er með svínaræktina? Er ekki staðan sú að ef tollasamningurinn verður innleiddur og greinin er á sama tíma að takast á við milljarða kostnað vegna aðbúnaðarreglna, þá leggst hún af, a.m.k. á fjölskyldubúunum? Kannski standa eftir ein eða tvær verksmiðjur, kannski ekki einu sinni það. Er það framtíðin sem við viljum, í staðinn fyrir að hlúa að fjölskyldueiningunum og styðja þær? Það mætti t.d. halda áfram að efla kornrækt þannig að greinarnar verði meira sjálfbærar og í þágu umhverfisins líka, því að að sjálfsögðu minnkar það vistsporið að holl og góð matvæli séu framleidd á viðkomandi svæðum eða í viðkomandi löndum í stað þess að vera flutt milli landa. Það er ein góð og gild ástæða til viðbótar mörgum öðrum til þess að styðja innlenda matvælaframleiðslu og innlendan matvælaiðnað.

Það er ekki hægt að sleppa því að ræða tollasamninginn í tengslum við þetta. Nú er boðað hér að hann eigi að koma eftir helgi. Heyrast þær sögur úr stjórnarflokkunum að þetta tvennt sé algerlega samtvinnað. Annar flokkurinn muni ekki greiða götu búvörusamninganna nema tollasamningurinn komi með eða öfugt. Er það svo, hæstv. ráðherra? Er það hinn pólitíski díll? Að Sjálfstæðisflokkurinn styðji búvörusamningana með ólundargeði að uppistöðu til gegn því að fá tollasamninginn, sem menn sjá eitthvert grand í? Hvernig stóð á því að sá samningur var gerður eins og hann var gerður og hent inn í þá óvissu sem landbúnaðurinn stendur frammi fyrir? Má ég minna á að við þá óvissu bætist að nú er sótt að reglum Íslands hvað varðar hollustu og dýraheilbrigði með því að við verðum að gefa eftir bann við innflutningi á hráu kjöti og hráum afurðum. Bætist það við að á næstu árum er verið að henda landbúnaðinum inn í mjög mikla óvissu og erfiðleika. Hvernig ætla stjórnvöld að takast á við það? Þessi samningur leysir það ekki. Nema þá helst að því eina leyti að það á að heita svo að hann sé til tíu ára, sem er auðvitað alltaf innan skekkjumarka eða gæsalappa því að taka má hann upp á hvaða ári sem er og ríkisvaldið hefur alltaf fyrirvara um fjárveitingar sínar til samningsins árlega. Þannig gera menn væntanlega samninga í dag af hálfu ríkisins. Það getur því átt eftir að breytast.

Ég hefði talið að það ætti þess vegna alveg sérstaklega að leggja grunn að aðlögunar- og stuðningstímabili fyrir innlendan landbúnað og innlenda matvælaframleiðslu í ljósi þeirrar óvissu sem að mörgu leyti blasir við henni. Það þarf að gera með öðrum hætti en þessum, öðrum hætti en þeim að henda greininni út í mögulegar ógöngur vegna offramleiðslu, verðfalls og þurfa að fara að reiða sig á útflutning með misjöfnum árangri.

Um samningana almennt vil ég segja það að þegar kemur að garðyrkjunni hef ég engar athugasemdir. Sá samningur hefur gengið vel, er fólginn í beingreiðslum til framleiðenda á tómötum, gúrkum og papriku og niðurgreiðslu á raforkukostnaði. Það er ánægja með hann og engin ástæða til annars en að framlengja hann enda rennur hann úr gildi um áramótin.

Varðandi mjólkursamninginn má segja að uppreisn grasrótarinnar meðal kúabænda hafi leitt það af sér að þeir skutu í raun og veru ágreiningnum á frest og mega kjósa um það sjálfstætt 2019 hvort þeir fari í þær kerfisbreytingar. En hvers vegna í ósköpunum fékk sauðfjárræktin ekki einhvern veginn sambærilega meðhöndlun? Af hverju á að keyra hana, þar sem miklu minni ástæða er í raun og veru til breytinga, inn í þá óvissu sem hún á að mæta? En segjum það, það má alveg skoða það að afgreiða mjólkurhluta þessa samnings, enda rennur hann líka úr gildi um áramótin. En sauðfjársamningur gildir út árið 2017 og það er engin ástæða til þess að klára það mál núna. Það á að senda ríkisstjórnina aftur heim með þessa niðurstöðu og segja henni að ræða aftur við bændur og ná betri niðurstöðu og sem meiri sátt er um. Gleymum því ekki að yfir 40% sauðfjárbænda sem þátt tóku í atkvæðagreiðslunni felldu samninginn. Svo mikil er óánægjan með hann. Undir hálfgerðum hótunum um að þeir skuli hafa verra af ef þeir samþykkja hann ekki.

Rammasamninginn þyrfti líka að geyma vegna þess að þar þarf að taka betur á stuðningi við t.d. svínarækt og eggjaframleiðslu. Annars leggst hún meira og minna af í landinu, óttast ég.

Að mínu mati á að leggjast yfir þetta mál á þessum forsendum: Hvað standa efni til að afgreiða í vor eða hugsanlega í haust — það er nægur tími í sjálfu sér, frumvarpið á ekki að öðlast gildi fyrr en 1. janúar 2017 samkvæmt því sjálfu — og hvað á ekki að afgreiða (Forseti hringir.) og hvað er of lélegt til þess að það nái máli og yfir það hef ég farið.