145. löggjafarþing — 111. fundur,  17. maí 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[16:24]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka kærlega fyrir svörin. Það er alltaf gott þegar ráðherra situr í salnum og stekkur til og svarar spurningum þingmanna. Ég kann að virða það.

Það er gott að heyra með kartöflurnar, ég er sérstök áhugamanneskja um kartöflur og þætti leitt ef kartöflurækt mundi leggjast af. Ég heyri af áhyggjum hjá kunningjum mínum sem eru í þeim geira.

Varðandi dýravelferð þá er það rétt sem ráðherra segir, það að bremsa greiðslur væri mjög viðamikið úrræði og ef það yrði gert þyrfti að vera alveg á hreinu hvaða reglur gilda. En nú vitum við að Matvælastofnun hefur í einhverjum tilfellum hreinlega lokað, t.d. hjá mjólkurbændum. Mál hafa farið fyrir dómstóla sem varða sauðfjárrækt þar sem dýralæknar og fulltrúar frá MAST eru ítrekað á staðnum og gríðarleg orka þeirra fer kannski í örfáa aðila sem setja síðan blett á alla hina, vegna þess að þetta eru þrátt fyrir allt örfáir aðilar. Ég held að það væri til þess vinnandi að setja þetta í lögin eins og talað var um í atvinnuveganefnd þegar þetta var tekið út úr lögum um dýravelferð og talað var um að það ætti frekar heima í búvörulögunum, en að sjálfsögðu yrði vandað til verka og þetta yrði alltaf neyðarúrræði. En það er samningssamband þarna á milli bænda og ríkisins og ríkið uppfyllir skyldur sínar og greiðir með framleiðslunni eða því sem bændur eru að gera og þá verða bændur að sama skapi að uppfylla sín skilyrði. Lög um dýravelferð ættu að vera grunnurinn fyrir því hversu langt má ganga og hvenær við erum farin að tala um alvarleg brot gagnvart dýrum.