145. löggjafarþing — 111. fundur,  17. maí 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[17:13]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um búvörulög og fleira. Það hefur verið mjög fróðlegt að fylgjast með umræðum um málið í dag og greinilegt að sitt sýnist hverjum sem hafa tekið til máls og viðbúið, eða eiginlega augljóst, að nokkuð mikil vinna mun bíða þingmanna í hv. atvinnuveganefnd.

Það hversu ólík sjónarmið hafa verið hér uppi kann auðvitað að skýrast af því að um gríðarlega mikilvægt og víðfeðmt mál er að ræða, kannski líka hugsanlega af því sem hefur verið bent á í umræðunni að það hafi í raun ekkert eiginlegt pólitískt samráð verið haft við gerð búvörusamninga. Það er umhugsunarefni út af fyrir sig því að eins og ég sagði er þetta gríðarlega stórt og mikilvægt mál, enda er innlendur landbúnaður grunnþáttur í því að á Íslandi fái þrifist sjálfbært samfélag sem er sjálfu sér nægt um matvæli í eins ríkum mæli og hægt er, meðal annars með tryggu fæðuöryggi fyrir þá sem hér búa. En um leið er landbúnaður auðvitað mikilvæg atvinnugrein og þess vegna er mikilvægt að þeir sem starfa í greininni búi við góð og batnandi lífskjör. Þetta þarf allt einhvern veginn að fara saman og getur vissulega stundum orðið snúið.

Mig langar að taka undir með þeim sem talað hafa í dag og hafa haft áhyggjur af því að breytingar á stuðningi ríkisins við bændur geti leitt til offramleiðslu og þar með verðfalls á afurðum. Mig langar að setja þetta atriði í samhengi við umhverfissjónarmið og nærtækt er að benda á að samband er á milli hraðrar og mikillar fjölgunar sauðfjár og ástands beitarmála. Þar er vitaskuld mikilvægt að fara varlega.

Það er annað sem ég hef líka áhyggjur af í umhverfislegu tilliti. Það tengist mögulega hvata til aukinnar framleiðslu. Hæstv. ráðherra varð einmitt tíðrætt um það í ræðu sinni, um aukna framleiðslu á hágæðaafurðum. Í athugasemdum með frumvarpinu á bls. 14 segir einmitt: „Matvælalandið Ísland – átak verði gert til markaðssetningar á íslenskum matvælum.“

Við viljum auðvitað að hér sé hágæðaframleiðsla. En ég hef svolitlar áhyggjur af því að það sem liggi í loftinu og megi í rauninni kannski lesa út úr frumvarpinu sé aukinn útflutningur á íslenskum landbúnaðarafurðum og það tengist þá aftur hvötum til framleiðsluaukningar sem ég minntist á áðan. Mér finnst mikilvægt að við séum sjálfum okkur samkvæm. Ef okkur er alvara með að ná árangri í loftslagsmálum og ef við viljum standa við Parísarsamkomulagið þá má ekki bara tala um það einangrað, sem eitthvert einangrað fyrirbæri sem við þurfum að ná einhverjum tökum á, heldur verður að sjá þess stað í stefnumörkun stjórnvalda.

Þar komum við að vistsporinu. Það skiptir máli í umhverfislegu tilliti að við á Íslandi séum sem mest sjálfbær um matvæli og takmörkum kolefnissporið þegar kemur að innflutningi á matvælum. Við tölum oft um að það sé þess vegna mikilvægt í umhverfislegu tilliti að borða lókalt, eða borða það sem vex sem næst okkur, en þá virkar þetta líka í hina áttina. Við þurfum líka að takmarka vistsporið þegar kemur að útflutningi. Mér finnst ég verða að halda því til haga, verandi þingmaður hreyfingar sem hefur umhverfismál sem ein af meginmálum sínum verð ég að halda þessu sjónarmiði til haga þegar við tölum eða fjöllum um þá umgjörð sem landbúnaðarmálum á Íslandi er sköpuð. Það er í raun og veru út af þessu stóra máli sem ég kem hingað upp í ræðu. Mér finnst alveg gríðarlega mikilvægt að við höldum þeim umhverfislegu sjónarmiðum til haga og við verðum að vanda okkur við að láta allt smella saman. Við erum auðvitað að tala um kjaramál bænda en við þurfum líka að hugsa um hvernig þetta snýr allt í hinu stóra umhverfislega samhengi, svo því sé til haga haldið.

Mig langar að minnast á eitt sem mér finnst gríðarlega jákvætt við þessi búvörulög, framsetningu þeirra, í kafla um mat á áhrifum frumvarpsins, að þar fylgir með sérstakt jafnréttismat frumvarpsins. Mér finnst það til algjörrar fyrirmyndar, raunar sérstaklega mikilvægt í þessari atvinnugrein sem hefur, ég held að ég geti leyft mér að segja það, verið karllæg í þeim skilningi að bóndi er yfirleitt, bæði í málskilningi og líka í praxís, karlmaður meðan bóndakona hefur kannski meira verið talin húsfreyja en ekki bóndi í sjálfu sér þó svo að á öllum eða velflestum nútímabæjum sinni bæði kynin búrekstrinum og heimilisrekstrinum til jafns.

Þess vegna finnst mér sú vinna mikilvæg sem farið hefur verið í að skoða hvernig stuðningur ríkisins hefur raðast á karla og konur. En það er rakið í athugasemdum með frumvarpinu að atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið hafi á árunum 2012–2014 gert greiningu á búvörusamningum og að verkefnið hafi verið hluti af kynjaðri hagstjórn. Þar kom mjög greinilega fram að karlar eru yfirgnæfandi meiri hluti handhafa beingreiðslna frá ríkinu meðan hlutfall kvenna hefur hins vegar verið mjög lágt og að horft hafi verið til þessa við greiningar á búvörusamningnum og horft hafi verið til þessa við gerð samningsins og því sé verið að gera þær breytingar að hjón eða sambýlisfólk sem stendur saman að búrekstri geti óskað eftir greiðslum samkvæmt því að samningnum sé skipt jafnt á milli aðila.

Einhverjum kann kannski að finnast þetta vera lítið og léttvægt aukaatriði þegar kemur að því að ræða um þessi stóru og miklu mál. En í mínum huga er þetta alveg gríðarlega mikilvægt. Ef okkur á að vera einhver alvara með því að vilja að landbúnaður á Íslandi sé grein sem getur blómstrað til framtíðar þá þurfum við að huga að kynjasjónarmiðum og gera nauðsynlegar breytingar til þess að konur jafnt sem karlar geti sinnt starfinu og hafi jafna aðstöðu þegar kemur að því að vera bóndi.

Þar sem röddin ætlar að svíkja mig og aðeins er farið að sneyðast um tímann langar mig að lokum að segja að mér finnst það mikilvægt sem kom fram fyrr í dag í máli hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar að ekki er ágreiningur um alla þætti búvörusamningsins þó svo að vitanlega hafi umræðan í dag snúist aðallega um þau atriði sem ágreiningur er um. Þannig vill það oft verða. Til að mynda held ég að ekki sé mikill ef nokkur ágreiningur um það sem lýtur að garðyrkjusamningnum. Hins vegar er líka ljóst að svínabændur og mjög stór hluti sauðfjárbænda er ósáttur við samninginn.

Ekki er gert ráð fyrir að frumvarpið eins og það stendur taki gildi fyrr en 1. janúar árið 2017. Það er því rúmur og góður tími til að breyta og bæta það sem mest ósátt er um. Það mætti jafnvel hugsa sér að hægt væri að skipta lokaafgreiðslu málsins upp í smærri áfanga þar sem fyrst er gengið frá því á þinginu að samþykkja það sem er meiri sátt um en halda áfram að vinna að því sem meiri ósátt er um. Ég vil í lok máls míns beina því til hv. atvinnuveganefndar að hún skoði það í vinnu sinni hvort það sé kannski vinnulag sem gæti fleytt okkur áfram til þess að þegar upp verður staðið verðum við með búvörulög sem víðtæk sátt ríkir um, því að ég held að það sé mikilvægt íslenskum landbúnaði og íslenskum bændum.