145. löggjafarþing — 114. fundur,  22. maí 2016.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum.

777. mál
[23:03]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ef málsmeðferðartíminn hefði verið lengri og ef málið hefði fengið fullan tíma til umsagnar og þá þinglegu meðferð sem þingmál fá jafnan getur vel verið að ég hefði stutt það en sökum aðstæðna sit ég hjá. Það er í sjálfu sér ekki áfellisdómur yfir málinu, ég bara held að ég þyrfti meiri umræðu, nánari skoðun og fleiri skoðanir utan úr samfélaginu á málinu til að vilja greiða atkvæði með því.

Að því sögðu skil ég og ber virðingu fyrir því að það er stuttur tími til stefnu. Þetta mál hefur þurft eðli þess samkvæmt að taka stuttan tíma og málsmeðferðin hefur þurft að vera á einhvern hátt óvenjuleg. Þær aðstæður hjálpa mér hins vegar ekki í mínum störfum og þess vegna sit ég hjá.