145. löggjafarþing — 116. fundur,  23. maí 2016.

metanframleiðsla.

572. mál
[15:58]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina um þetta mál sem snertir orkuskipti í samgöngum. Það er ofarlega á dagskrá hjá okkur í ráðuneytinu og á vettvangi ríkisstjórnarinnar. Þingmaðurinn beinir til mín fimm spurningum og ég hef ákveðið, til þess að komast yfir það allt, að svara þeim hverri fyrir sig.

Fyrst er spurt hversu mörg fyrirtæki starfi að framleiðslu metans hér á landi. Því er til að svara að það eru tvö fyrirtæki sem gera það, Sorpa og Norðurorka.

Spurt er hversu margir einstaklingar starfi við metanframleiðslu hér á landi og hversu margir þeirra búi á lögbýlum. Því er til að svara að það eru þrír einstaklingar sem starfa við framleiðsluna hjá Sorpu og hjá Norðurorku eru starfsmenn við framleiðslu og afgreiðslu metans einn til einn og hálfur. Samkvæmt upplýsingum frá Bændasamtökum Íslands er vitað um tilraunaframleiðslu metans á einu lögbýli. Það er í Flóanum og heitir Hraungerði.

Spurt er hvaða lög gildi um framleiðslu metans á lögbýlum. Það eru þrenn lög sem undir það heyra. Í fyrsta lagi er að nefna lög nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs, og sú löggjöf heyrir undir umhverfis- og auðlindaráðuneytið. Í öðru lagi lög nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, og þau heyra einnig undir umhverfis- og auðlindaráðuneytið. Þetta er starfsleyfisskyld starfsemi samkvæmt þessum lögum og reglugerðum settum á grundvelli þeirra. Í þriðja lagi eru það lög nr. 40/2013, um endurnýjanlegt eldsneyti til samgangna á landi. Þau eru á forræði iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Sé framleiðsla metansins ætluð til notkunar í samgöngum á landi gilda þessi lög um framleiðsluna.

Í fjórða lagi er spurt um gjöld sem ríkið innheimtir af metanframleiðslu á lögbýlum. Um álagningu gjalda á metanframleiðslu á lögbýlum fer eins og um annan iðnað og atvinnustarfsemi, framleiðslan er skattlögð eins og önnur atvinnustarfsemi og af henni er því greiddur tekjuskattur, almennur virðisaukaskattur o.s.frv.

Síðan er spurt hvort mótuð hafi verið stefna um aukna framleiðslu metans hér á landi og ef svo er hverjir möguleikar lögbýla séu samkvæmt henni. Því er til að svara að stjórnvöld hafa ekki mótað stefnu um framleiðslu einnar eldsneytistegundar umfram aðra heldur höfum við í allri okkar vinnu gætt almenns tæknilegs hlutleysis í stefnumótun og aðgerðum; við leyfum sem sagt markaðnum sjálfum að ráða hvaða tækni verður ofan á. Á undanförnum árum hafa stjórnvöld hins vegar með ýmsum hætti reynt að ýta almennt undir orkuskipti í samgöngum og má þar nefna þingsályktun um orkuskipti í samgöngum frá 139. löggjafarþingi og fyrrnefnd lög nr. 40/2013, um endurnýjanlegt eldsneyti til samgangna á landi. Ágætlega hefur tekist til í þessum efnum og vísa ég meðal annars í skýrslu sem ég lagði fyrir Alþingi fyrir tæpu ári, í júní 2015, um orkuskipti í samgöngum. Sú skýrsla var samin af Grænu orkunni sem er samstarfsvettvangur um orkuskipti. Ökutæki sem nota metan njóta í dag ákveðinna skattalegra ívilnana eins og fyrirspyrjandi kom inn á. Ég vil geta þess að á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytisins er nefnd að störfum sem er að fara heildstætt yfir þau mál, þ.e. skattlagningu á eldsneyti, hvort sem það er jarðefnaeldsneyti eða annað, vörugjöld á bifreiðar o.s.frv. Er sú vinna í fullum gangi.

Að því er mótun nýrrar stefnu varðar vil ég geta þess að á næstu dögum hyggst ég leggja fram hér á þingi tillögu til nýrrar þingsályktunar um orkuskipti. Í henni verður meðal annars áfram lögð áhersla á framleiðslu innlends endurnýjanlegs eldsneytis eins og metans og lögð fram aðgerðaáætlun til næstu ára. Þetta er metnaðarfull aðgerðaáætlun en raunhæf og tekur heildstætt á þessum málum. Ég vonast alla vega til þess að koma þingsályktunartillögunni inn og mæla fyrir henni og best væri ef við gætum afgreitt hana á þessu þingi.