145. löggjafarþing — 117. fundur,  24. maí 2016.

störf þingsins.

[14:02]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Herra forseti. Fyrir stuttu var lögð fram fjármálaáætlun til fimm ára frá ríkisstjórninni. Það er mjög gott og þarft framtak og vel til þess fundið að leggja svona áætlun fram til lengri tíma. Ég tók eftir því í þeirri fjármálaáætlun að það er verið að bæta um 30 milljörðum í heilbrigðisþjónustuna á landinu, áætlað á þessum árum. En þegar maður skoðar hina ýmsu liði, eins og t.d. sjúkraflutninga, sér maður ekki að með því aukna fjárframlagi eigi að mæta þeim gríðarlega vanda sem er að skapast á Íslandi varðandi sjúkraflutninga og er ég þá að tala sérstaklega um Suðurland.

Okkur þingmönnum á Suðurlandi barst áskorun frá Landssambandi slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna í byrjun maí þar sem þeir lýstu yfir gríðarlegum áhyggjum af síauknu álagi á sjúkraflutningamenn þar. Ekki þarf að fara í grafgötur með það að á Suðurlandi og í Suðurkjördæmi eru átta til níu vinsælustu ferðamannastaðir landsins sem þýðir fjölgun ferðamanna. Þar fara um 50–60% allra ferðamanna sem koma til landsins utan þess að yfir 50% landsmanna, heimamanna sjálfra, sem ferðast um landið, fara um Suðurland.

Það er þannig, því miður, að fjárframlög til þessa málaflokks á Suðurlandi standa engan veginn undir þeirri gríðarlegu aukningu sem hefur orðið. Byggður hefur verið upp mikill mannauður í sjúkraflutningum hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands og ef heldur áfram sem horfir lítur út fyrir að fólk fari að hætta störfum þar, sem er mjög slæmt. Því skora ég á fjárveitingavaldið að bregðast strax við og leggja inn peninga því að eins og allar spár benda til mun ferðamönnum jafnvel fjölga um 500.000 á þessu ári. Það segir sig sjálft, ef skýrsla Samgöngustofu á síðasta ári er skoðuð, að það horfir til mikilla vandræða og þá sérstaklega á Suðurlandi.

Af 16 dauðsföllum á síðasta ári voru sex á Suðurlandi og það segir meira en mörg orð.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna