145. löggjafarþing — 118. fundur,  25. maí 2016.

starfsemi kampavínsklúbba.

[16:03]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu sem hefur verið afar góð. Ég minni á að það er engin skilgreining á neinu sem heitir kampavínsklúbbar í lögum. Í 4. gr. laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald er hins vegar ákvæði um að á veitingastöðum megi hvorki gera út á nekt né bjóða upp á nektarsýningar. Þar er ekki um að ræða skilgreiningu á tilteknum klúbbum, þetta er bara almennt bann við því að á veitingastöðum sé slíkt atferli fyrir hendi. Löggjafinn hefur talað skýrt hvað þetta varðar.

Síðan vil ég segja að mín upplifun hefur verið sú að þingheimur sé sammála um þetta og hefur ítrekað rætt það hér, bæði í fyrirspurnum til einstakra ráðherra, bæði á þessu kjörtímabili og fyrr, og í ýmsum öðrum umræðum á þinginu, rætt þessa tilteknu brotastarfsemi sem við erum þarna að tala um. Þingið hefur talað mjög skýrt í þeim efnum. Ef við tölum um þau brot sem hér hafa verið mest til umræðu, mansal, er þingið afar skýrt um að slík brot eru algjörlega ólíðandi enda eru þau gegn lögum. Ef um það er að ræða þarf að rannsaka slík brot og refsa mönnum fyrir þau. Það liggur alveg fyrir og ég held að mér sé óhætt að segja í þessum stól að þingheimur hefur talað skýrt þegar að þessu kemur.

Síðan höfum við auðvitað séð að mansal hefur því miður sést víðar um samfélagið. Við höfum séð dæmi um það að undanförnu gagnvart erlendu starfsfólki, verkafólki sem hingað hefur komið. Það er nokkuð sem við getum aldrei nokkurn tímann fellt okkur við og þurfum að standa okkur miklu betur í. Ég hef ekki orðið vör við þann ágreining og ég held að hann sé ekki fyrir hendi, hvorki innan flokka, milli flokka né annars staðar á þingi.