145. löggjafarþing — 118. fundur,  25. maí 2016.

tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

618. mál
[16:43]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Ég vil í byrjun þakka fyrir og fagna þeirri miklu samstöðu sem er í hv. atvinnuveganefnd um þetta mál, sem er reyndar í samræmi við það hvernig okkur hefur tekist að vinna saman í vetur. Það hefur verið mikil samstaða um málin sem endurspeglast hér þar sem allir flokkar sækja fundi nefndarinnar og eiga fulltrúa undir nefndarálitinu.

Ég sakna þess að þingmenn Pírata skuli ekki hafa tekið þátt í þessu með okkur og hefði gjarnan viljað sjá þá á fundum nefndarinnar í vetur. En það á sér eflaust einhverjar skýringar.

Það er mikil gróska í íslensku atvinnulífi. Fjölbreytnin hefur aukist mikið frá því sem við máttum upplifa fyrir nokkrum árum eða áratugum. Atvinnuleysi er nánast horfið, frá því að það sló hér öll met fyrir örfáum árum. Það þarf enginn að láta sér detta í hug að slíkt gerist af sjálfu sér. Það er ekki þannig að fyrir slíku þurfi ekki pólitíska forustu, pólitískan stöðugleika, traust atvinnulífsins til þess að auka fjárfestingar sínar og efla starfsemi sína hjá fyrirtækjum. Það er við þær aðstæður sem hafa verið skapaðar í umhverfi okkar og samfélagi á síðustu árum, á þessu kjörtímabili, sem við höfum séð tækifærin aukast, fjárfestinguna aukast og tiltrú fyrirtækjanna og atvinnulífsins á samfélaginu og uppbyggingu þess verða sterkari.

Í þeirri grein sem við fjöllum sérstaklega um er mjög áhugavert að fylgjast með þeirri þróun sem hefur orðið. Það er mikil samkeppni milli þjóða, milli landa þegar kemur að kvikmyndaiðnaði. Um er að ræða grein sem flestar þjóðir vilja fá til sín vegna þess ávinnings sem er af beinum störfum við framleiðsluna en ekki síður út af þeim viðbótarávinningi sem af henni fæst. Við getum tekið Noreg sem dæmi sem er að reyna að hasla sér völl á þessum vettvangi. Þeim þótti regluverkið í kringum þennan iðnað á Íslandi vera það mikið til fyrirmyndar að þeir tóku það regluverk og gerðu að sínu. Þeir yfirbuðu okkur reyndar í endurgreiðsluprósentunni, sem er ein af ástæðum þess að það var mjög mikilvægt að hæstv. iðnaðarráðherra skyldi vera vakandi í þessu máli með okkur og koma fram með þetta frumvarp til að halda í við alþjóðlega samkeppni sem við tökum þátt í.

Þetta er ákveðin nýsköpun í íslensku atvinnulífi. Það hefur oft verið talað um að nýsköpun og nýfjárfestingu vanti. Hún er virkilega til staðar þegar kemur að þessari grein. Veltan er orðin upp á tugi milljarða á hverju ári. Hér hafa orðið til ný störf, fjölbreyttari störf. Þetta eru hlutir sem við leitum eftir.

En þessi atvinnugrein kemur ekki í staðinn fyrir neina aðra eða í veg fyrir einhverja aðra. Hún þrífst í fjölbreyttri samsetningu þegar kemur að atvinnulífi okkar. Það er slæmt þegar við tölum um ákveðnar greinar atvinnulífsins hversu oft við dettum í þann gír að segja að eitthvað annað verði að koma í staðinn fyrir hitt. Þetta er einmitt skýrt dæmi um það hversu vel flóran getur blómstrað, hversu fjölbreytt tækifæri við getum búið til og aukið þar með stoðirnar undir samfélaginu. Hér hafa orðið til ný störf og ný tækifæri sem geta nýst því fólki sem hefur haslað sér völl á þessum vettvangi, því að nám á þeim vettvangi getur skapað ungu fólki tækifæri úti um allan heim. Það kom fram við málsmeðferðina í hv. atvinnuveganefnd að okkar fólk nýtur orðið alþjóðlegrar viðurkenningar á þessu sviði, sem er gríðarlega mikilvægt. Alþjóðleg viðurkenning á því sviði er ekki lítils virði, hún er gríðarlega mikils virði. Hún er heldur ekki sjálfsögð. Hún hefur einmitt skapast vegna þeirra tækifæra sem stjórnvöld hafa beitt sér fyrir. Það hefur verið samhljómur á milli flokka á Alþingi þegar kemur að þessum mikilvæga málaflokki.

Hverjum hefði dottið í hug fyrir nokkrum árum að við horfðum upp á það jafnvel í náinni framtíð að hér ætti eftir að framleiða að mestu leyti svokallaða Hollywood-kvikmynd? Hverjum hefði dottið það í hug? En við sjáum núna að það eiga sér stað fjárfestingar í húsnæði fyrir kvikmyndaver. Það hefur komið fram hjá þeim sem standa framarlega í þeim geira hér á landi að við séum á þröskuldinum við að geta farið út í frekari fullvinnslu og jafnvel stúdíótökur á kvikmyndum. Við sjáum þau skref stigin. Þau eru stigin með því sem er verið að gera hér, vegna þeirra skrefa sem Alþingi stígur í ákvarðanatöku til að efla atvinnugreinina.

Það er mikill viðbótarávinningur í mörgu tilliti, alveg sérstaklega mikill, við þessa atvinnugrein. Hann er vissulega við allar atvinnugreinar, einhver sérstaða og eitthvað sem er viðbótarávinningur, en hér horfum við upp á atriði eða starfsgrein sem á örugglega mjög stóran þátt í því hversu íslensk ferðaþjónusta er að eflast, hún er að koma okkur á kortið eins og það er kallað. Landkynningin er mikil. Hér hafa verið teknar upp stórar myndir sem hafa jafnvel farið sigurför um heiminn, eins og hægt væri að orða það. Hér hafa verið teknar upp þáttaseríur sem hafa verið mjög vinsælar á heimsvísu. Hingað hafa komið þekktir leikarar sem hafa dásamað land og þjóð, dásamað náttúruna, kurteisina, gestrisnina og allt það umhverfi sem þeir eru í og borðað hvalkjöt, svo það sé nú hnýtt við þetta, sem á að vera svo slæmt fyrir ímyndina. Ég verð að koma því að. Þetta er dæmigert fyrir það hvaða árangri er hægt að ná.

Það kom einnig mjög vel fram við vinnslu málsins hjá nefndinni hversu mikilvægt þetta er mörgum svæðum á landsbyggðinni sem eru eftirsóknarverð fyrir þennan iðnað til þess að taka upp myndir. Þetta er gjarnan iðnaður sem hefur komið inn á þeim tímum sem eru utan háannatíma. Afrakstur einnar kvikmyndar, eins og við fylgdumst með þegar tekið var upp á Mývatni og síðan Akranesi, er jafnvel þúsundir gistinátta á hótelum, miklar flugferðir, hundruð ef ekki þúsundir daga á bílaleigubílum, mikill mannfjöldi, vinna fyrir heimafólkið við að þjónusta allt í kringum þetta. Það er gríðarlega mikilvægt. Þetta er eins og að lenda á góðri vertíð. Íslendingar eru ekki óvanir því og það er kannski þáttur í þessu, samfélagið okkar, við höfum vanist því í gegnum tíðina að taka á því á köflum sem gerir að verkum að við getum þetta. Fólkið er tilbúið til að leggja á sig mikla vinnu og taka á sig mikið álag yfir skamman tíma til að sjá hlutina gerast.

Það er sérlega ánægjulegt. Við fengum dæmi um þetta, hversu mikilvægt það er þessum svæðum, hversu mikla viðbót það getur gefið fjölbreyttu samfélagi okkar í hinum dreifðu byggðum.

Ég ítreka að ég fagna þeirri samstöðu sem varð um þetta mál. Það var mjög ítarlega unnið af hálfu nefndarinnar. Við gerðum á því smá breytingar til að aðlaga enn betur að þeim kröfum sem gerðar eru til okkar. Ég held að í alla staði megi reikna með því að áhrifin af þessu fyrir okkur öll verði mjög jákvæð.