145. löggjafarþing — 119. fundur,  26. maí 2016.

rannsóknarnefndir.

653. mál
[11:21]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er gott að verið sé að breyta lögum um rannsóknarnefndir Alþingis. Ég sakna þess þó að ekki sé krafist meiri hluta þingmanna, þ.e. að 32 þingmenn þurfi til að samþykkja rannsókn sem Alþingi fer í. Færa má fyrir því rök að meira að segja ætti að vera aukinn meiri hluti fyrir því að alþingismenn samþykktu rannsókn. Þessar reglur hindra, væri farið fram á meiri hluta, að rannsóknarnefndir séu notaðar til að koma höggi á pólitíska andstæðinga. Ég hef fjallað um þetta áður í þinginu en því miður hafa ábendingar mínar ekki ratað inn í vinnu stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Ég ætla t.d. að benda á að þegar mest rannsakaða mál síðasta kjörtímabils var samþykkt, að fara af stað með rannsókn hjá þinginu á fyrri einkavæðingu bankanna, voru einungis 24 þingmenn sem samþykktu þá viðamiklu rannsókn. Þetta er galli á lögunum, virðulegi forseti, en ég styð samt málið.