145. löggjafarþing — 119. fundur,  26. maí 2016.

samningur Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur.

783. mál
[12:06]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um staðfestingu á samningi Evrópusambandsins og Íslands um viðskipti með landbúnaðarvörur. Á margan hátt má segja um landbúnaðinn á Íslandi og landbúnaðinn í Evrópu að þar sé ólíku saman að jafna. Á Íslandi höfum við tiltölulega fábreyttan landbúnað, örfáar búgreinar sem við höfum ákveðið að standa vörð um, helst kjötframleiðslu og mjólkurframleiðslu og með ákveðnum hætti ákveðinn hluta grænmetisframleiðslunnar sem við viljum ekki missa frá okkur.

Ég verð að segja hér í upphafi umræðunnar um þennan samning að mér finnst hann í engu jafnvægi. Það er ekkert jafnvægi í þessum samningi. Það kom ágætlega fram í ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar í hverju það ójafnvægi er fólgið. Mér finnst líka vera ójafnvægi á milli búgreinanna sem samið er um í samningnum. Verið er að láta eina, tvær búgreinar taka á sig miklar byrðar til að liðka fyrir viðskiptasamböndum eða aðgangi fyrir aðrar búgreinar. Mögulega má rökstyðja það með þeim hætti sem gert hefur verið í opinberri umræðu, að það séu búgreinar sem geta verið miklu samkeppnishæfari, en við verðum samt og getum ekki rætt þetta mál úr tengslum við annað mál sem er til umfjöllunar í þinginu, sem eru búvörusamningar. Verður þá að segja að við stöndum í mjög skrýtinni umræðu um hvort skattpeningar megi leka á aðra markaði til stuðnings búvöruframleiðslu á Íslandi, og þar á meðal Evrópumarkaðar í þessu tilfelli, ef nýttar verða þær heimildir sem hér er samið um.

Þetta er mjög sérstök og skrýtin umræða, en við skulum ekki forsmá hana og einfaldlega mæta henni. En hérna erum við þá að opna fyrir meiri innflutning á búvöru sem einhverjir aðrir skattgreiðendur hafa greitt með og því skulum við alveg átta okkur á.

Ég get ekki ímyndað mér að hægt sé að byggja gerð þessa samnings á viðhorfi bænda til þess að sækja auknar útflutningsheimildir á Evrópumarkað, sem ég veit vel að lágu fyrir í ráðuneytum á árum áður. Rétt eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon vitnaði um hér áður þegar hann var í ráðuneyti þessara mála og ég með fyrri aðkomu minni að þessum málaflokki þá voru það fyrst og fremst viðbrögð við tollasamningi sem gerður var 2007–2008, sem var mjög einhliða með sama hætti og þessi samningur ef borið er saman jafnvægi á milli búgreina.

Ég get heldur ekki varist því að finnast mjög undarlega frá því gengið þegar verið er að leggja að jöfnu örsmáan íslenskan markað og Evrópumarkað um búvöru og semja um aðgang að stórum markaði, kíló á móti kílói. Mér finnst það nánast ótrúlegt að við skulum láta okkur hafa það að skrifa undir slíka samninga. En þá skulum við líka átta okkur á hver staðan er raunverulega. Í dag er staðan sú að við flytjum inn 14–15% af öllu kjöti sem við neytum á landi. Það er langt umfram þá alþjóðasamninga sem við höfum skrifað undir að veita markaðsaðgang að. Við skulum þá líka muna að það er misjafnt á milli búgreina, misjafnt á milli kjöttegunda. Þannig eru 30–40% af öllu nautakjöti flutt inn til landsins eins og sakir standa í dag. Það er miklu frekar til vitnis um að okkur hafi mistekist í framkvæmd á landbúnaðarstefnu á Íslandi en nokkuð annað.

Ég sakna þess að við séum raunverulega ekki að ræða á miklu breiðari grundvelli um hvernig við ætlum t.d. að standa við stóru orðin í stjórnarsáttmála þessarar ríkisstjórnar um eflingu matvælaframleiðslu. Er þetta svarið við því? Ég held að ég verði að leyfa mér að spyrja að því þrátt fyrir að vera stjórnarþingmaður og styðji þessa ríkisstjórn. Það rímar ekki alveg í mínum huga. En það má vel vera að hægt verði að opna augu mín fyrir því einhvern tíma seinna. (Gripið fram í: Fer ekki saman hljóð og mynd.) Það fer ekki saman hljóð og mynd í þessu tilfelli.

Fyrir okkur, þessa fáu framleiðendur á Íslandi, hefði verið miklu verðmætara fyrst þessi leið var farin — nú ætla ég að taka fram að ég er ekkert á móti því að við göngum til gagnkvæmra samninga um viðskipti með landbúnaðarvörur nema síður sé, ég tel að við eigum þar líka sóknarmöguleika og eins og hv. utanríkisráðherra sagði í framsögu sinni getum við ekki byggt íslenska landbúnaðinn á því eingöngu að horfa bara til innanlandsmarkaðar. Við þurfum á því að halda að eiga aðgang að öðrum mörkuðum.

En þessi niðurstaða og þessi framkvæmd með þvílíka skekkju á milli búgreina sem hafa raunverulega enga möguleika á að sækja sér einhvern afkomubata á erlendum mörkuðum, eins og svína- og kjúklingarækt, eins og sakir standa í dag í það minnsta, getur einfaldlega ekki gengið upp.

Við sjáum ekki merki þess í þessum samningi að við getum með einhverjum hætti sótt lengra fram og dregið fram sérstöðu landbúnaðarins okkar á Íslandi, sem felst m.a. í lítilli lyfjanotkun. Lyfjanotkun tengist vaxandi vandamáli sem heilbrigðisyfirvöld víða um heim beina sífellt betur sjónum að, sem eru fjölónæmar bakteríur. Í nýjasta tölublaði tímaritsins Economist er fjallað með mjög sláandi hætti um það stóra heilbrigðisvandamál sem nú tröllríður heiminum. Getum við reist einhverjar skorður við því í vaxandi innflutningi og brugðist við lýðheilsusjónarmiðum sem því tengjast?

Í tengslum við þessa umræðu hefur verið nefnt að við getum ekki viðhaldið banni við innflutningi á fersku kjöti. Ég er ósammála því. Ég ætla ekki að fara nánar út í þá umræðu hér, en ef við þurfum að láta undan í þeim efnum verðum við að komast áfram með þær heimildir að við getum þá í það minnsta gert þær rannsóknir á innfluttu kjöti að við aukum ekki áhættuna á innflutningi á slíkum bakteríum sem eru ónæmar fyrir sýklalyfjum.

Landbúnaður sem ein heild byggir ekki síður á hvítakjötsgeiranum. Það er kannski að verða eins og slitin plata að tala um það og hversu illa gengur að ná því í gegn í almennri umræðu að auðvitað eru svínabændur og kjúklingabændur ekkert öðruvísi bændur en aðrir og þeir eru alveg jafn mikilvægir fyrir byggðina og landbúnaðinn í heild sinni og nautgripa- og sauðfjárbændur. Í Eyjafirði einum, svo ég nefni stað fyrir utan mitt kjördæmi, eru rúmlega þúsund störf byggð á landbúnaði. Það er um hagsmuni þessa fólks sem við erum að véla með slíkum samningum sem við ræðum í dag. Ég geri mér líka grein fyrir því að við frágang og gerð búvörusamninga var þessi tollasamningur ein af forsendum þess samnings, tímalengd og niðurstöðu þeirra samninga. Með ákveðnum hætti var það ákveðin forsenda þess að hann var undirritaður. Ég ætla ekki að gera lítið úr því. En ég ætla að leyfa mér að segja að miðað við hvernig samningurinn er byggður upp og hversu gallaður hann er tæknilega séð, t.d. varðandi flokkun og niðurröðun tollnúmera, og hvernig beita á honum, ætla ég einungis að segja hér að hefði ég verið á öðrum stað í lífinu, þ.e. þar sem ég sat áður, hefði ég einfaldlega slitið búvörusamningsviðræðum þegar fór að glitta í þessa niðurstöðu, og tekið upp breiðara samtal við stjórnvöld um hvernig við sæjum þá landbúnaðinn fyrir okkur í framtíðinni.

Ég er ekki að segja með þessu að það sé algerlega vonlaust að takast á við framtíðina þó að þessi samningur liggi fyrir, þó að ég ætli ekki að vera sérstakur baráttumaður fyrir því að hann komist hér á. En ég vil enda ræðu mína á því að segja að það má ekki alltaf stilla þessari umræðu þannig upp að þó að ég sé ósáttur við þennan tollasamning sé ég með einhverjum hætti á móti hagsmunum neytenda. Það er ég ekki nema síður sé. Ég held að við höfum engan veginn ræktað þá umræðu á undanförnum árum sem fara þarf fram um slíka hluti. Við erum nefnilega sammála um ákveðin grundvallarprinsipp hvar sem við stöndum í hagsmunakeðju matvælaverslunar og framleiðslu á Íslandi, hvort sem við stöndum hjá framleiðendunum, úrvinnsluiðnaðinum eða versluninni. Við höfum ákveðið fyrir löngu síðan að veita markaðsaðgang fyrir erlenda búvöru á innlendan markað. Við höfum gert það til þess að veita íslenskri framleiðslu ákveðið aðhald í verði og gæðum o.s.frv. Við höfum líka verið sammála um að innflutningurinn á ekki að eyðileggja skilyrði fyrir framleiðslu á Íslandi á ákveðnum búvörum. Það er yfirskriftin. Það eru markmiðin. En við höfum hins vegar algerlega látið það fara fram hjá okkur að ræða í allri virðiskeðjunni um hvernig við eigum að ná þeim markmiðum og setja saman við borð þá aðila sem að þessu koma. Við sitjum hér uppi með umræðu þar sem hver bendir á annan, ekki síst vegna þess að við eigum einstaklega lélega gagnaupplýsingu og framsetningu á tölfræðilegum upplýsingum, á vondu máli kallað „statistík“, um framleiðslukostnað, framleiðslutölur og áhrif ýmissa breytinga á markaðnum hér.

Þó að ég sé ekki sérstakur áhugamaður um að þessi samningur verði að veruleika, þótt ég átti mig fullkomlega á tilurð hans og forsendum við aðra þætti sem snúa að landbúnaðinum, tek ég ekki undir að ég sé þar með með einhverjum hætti að setja mig upp á móti hagsmunum neytenda. Það er ekki svo, því að neytendur eru ekkert annað en þjóðin og það eru fyrst og fremst þjóðarhagsmunirnir sjálfir sem við þurfum alltaf að ræða og megum aldrei missa sjónar á.