145. löggjafarþing — 119. fundur,  26. maí 2016.

stefna í skattlagningu á bifreiðaeigendur.

[15:13]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka öllum þeim hv. þingmönnum sem hér hafa tekið til máls.

Hvað er umhverfisvænn bíll? Flestir ræðumenn hafa talað um umhverfisvæna bíla án þess þó að skilgreina sérstaklega hvaða bíll er umhverfisvænni en næsti bíll. (Gripið fram í.) Þótt ég hafi tekið sérstaklega til umfjöllunar dísilbílana sem dæmi um bíla sem menga, gefa frá sér skaðleg efni út frá lýðheilsusjónarmiðum, verður ekki fram hjá því litið að dísilbílar, eins og bensínbílar og aðrir bílar, rafmagnsbílar líka, hafa verið í mikilli þróun. Þeir eru að batna mikið út frá umhverfissjónarmiðum. Allir þessir bílar menga minna en þeir gerðu fyrir nokkrum árum og sú þróun heldur áfram. Það er mikilvægt að sú þróun fái að halda áfram án inngripa stjórnmálamanna, þeirra sem telja sig vita betur. Þessi þróun þarf að fá að eiga sér stað í sátt og samvinnu við bæði markaðinn og vísindin. Það er þess vegna sem ég vek athygli á þeirri grímulausu neyslustýringu sem á sér hér stað við skattlagningu á bílum og eldsneyti.

Menn hafa nefnt rafmagnsbílana sérstaklega og spurðu: Af hverju keyra sjálfstæðismenn ekki á rafmagnsbílum, af því að það eru engir skattar á rafmagnsbílum? Það vakti athygli mína í nýjum tölum um nýskráningar bifreiða að rafmagnsbílar eru einungis innan við 1% af nýskráningu. Samt eru engin vörugjöld á rafmagnsbílum, og verulegur afsláttur gefinn af virðisaukaskatti. Af hverju er það? Ég veit þó að efnameira fólk er að kaupa þessa bíla. Þess vegna er þessi niðurgreiðsla á rafmagnsbílum niðurgreiðsla til efnameira fólks hér á Íslandi.

Ég vil að lokum þakka fyrir þessa umræðu og fagna því að hæstv. ráðherra er að vinna í þessum málum og hefur skipað starfshóp. Ég vil fá að leggja áherslu á að stefnumörkun og lagasetning í þessum málum á auðvitað að koma frá löggjafanum en ekki embættismönnum. (Forseti hringir.) Sá þingmaður sem hér stendur vill að þróunin verði sú að dregið verði úr neyslustýringu, að einfalda kerfið til dæmis með því að hafa eitt vörugjald á alla bíla.