145. löggjafarþing — 119. fundur,  26. maí 2016.

samningur Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur.

783. mál
[15:48]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það má velta fyrir sér í þessu máli hvaða markmið liggi að baki aðgerðum stjórnvalda á hverjum tíma og afskiptum þeirra af atvinnugreinum eins og landbúnaði. Sé litið til landbúnaðarins sérstaklega er manni auðvitað umhugað um ákveðna þætti sem geta þá réttlætt slík afskipti. Það eru þættir eins og vistvænar framleiðsluaðferðir, siðrænar framleiðsluaðferðir, ekki síst þá með tilliti til velferðar dýra til dæmis; markmið eins og að styðja við byggð og styrkja hefðbundna atvinnumenningu í landinu.

Þegar tollastefna er sett í framkvæmd, hvort sem það er til hækkunar eða lækkunar á tollum, þarf hún að koma annaðhvort atvinnugreininni eða neytendum að gagni og helst báðum þessum hópum. Það má velta því fyrir sér hvort þeim markmiðum sé fullnægt með þeim samningi sem nú liggur fyrir þinginu. Samningurinn milli Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur heimilar aukningu á tollkvótum í nauta-, svína- og alifuglakjöti þannig að hægt verður að flytja inn mun meira af þessum afurðum til viðbótar við það magn sem er þegar flutt inn, sem er allverulegt.

Bændur segja að þetta muni hafa neikvæð áhrif fyrir þessar greinar og fara verst með fjölskyldubúin sem þeir telja að geti ekki staðið undir enn frekari holskeflu af ódýru kjöti. Fulltrúar þeirra greina sem í hlut eiga fullyrða að samningurinn muni þar af leiðandi frekar skaða íslenskan landbúnað og sumir fullyrða jafnvel að hann muni stórskaða hann.

Hér hefur þróunin á þessum innflutningi og tollamálum til þessa verið rakin stuttlega. Vægi innflutts svínakjöts árin 2008–2012 var á bilinu 3–10% en hefur mikið breyst á síðustu fjórum árum. Nú nálgast innflutningurinn það að vera 20% af heildarneyslu. Hlutdeild innflutnings á kjúklingakjöti í heildarmarkaði hefur vaxið úr 8% árið 2010 í 20% í fyrra. Það er svipuð saga í nautakjötinu þar sem vægi innflutts nautakjöts í heildarneyslu hefur aukist úr 4,5% 2010 í 10% 2013 og á síðustu fjórum árum hefur það svo aukist mjög hratt þannig að nú nálgast innflutningurinn að vera um 30% af heildarneyslu. Svo kemur þessi nýi samningur ofan á þetta; 500 tonn svínakjöts, 596 tonn í nauti, 656 tonn í kjúklingi, 200 lífræn tonn og svo unnar kjötvörur.

Það sem mér finnst kannski aðallega skipta máli, þótt ég sé nú ekki aðdáandi tollmúra og tollverndar yfirleitt, eru sjónarmið sem lúta að heilnæmi og umhverfisvernd. Nú er það þannig að íslenskur landbúnaður er að verulegu leyti laus við sýklalyfjanotkun þó að það sé auðvitað ekki fortakslaust. En ég hygg hins vegar að sýklalyfjanotkun í íslenskum landbúnaði sé verulega minni en tíðkast í nágrannalöndum okkar. Nú eru í gangi umfangsmiklar breytingar í ýmsum greinum vegna bætts aðbúnaðar dýra. Það má velta því fyrir sér hvort þessi stefna stjórnvalda í tollamálum þjóni markmiðum um bætta velferð dýra og baráttu við smitsjúkdóma og lyfjalausan landbúnað. Því kjötið sem verið er að flytja inn er auðvitað ekki laust við sýklalyf. Eins og hér hefur komið fram vitum við næsta lítið um aðbúnað þeirra dýra sem koma hingað í formi afurða. Það má spyrja um ágæti þess að á sama tíma og við aukum kröfur sé verið að lækka tolla á vörum frá svæðum þar sem ekki ríkja sömu kröfur.

Í þessari þingsályktunartillögu eru samskiptin við Bændasamtökin rakin. Þar kemur fram að bændur hafi beðið um þennan tollasamning sem nú er til umræðu fyrir þinginu. Það mun rétt vera að bændur gerðu athugasemdir við fyrri tollasamning frá árinu 2007 þar sem ekki voru í öllum tilfellum gagnkvæmir tollkvótar á móti til að flytja út. En þeir fullyrða að ekki hafi verið beðið um aukningu á tollum til landsins og benda á að í greinargerð frumvarpsins sé látið undir höfuð leggjast að lýsa samráðsleysinu við landbúnaðinn áður en samningurinn var undirritaður. Þar er ekki minnst á mótmæli bænda við þessum samningi. En á búnaðarþingi 2016 var þessum tollasamningi harðlega mótmælt og fullyrt að hann væri ekki í samhengi við fyrirætlanir stjórnvalda um eflingu innlendrar matvælaframleiðslu. Þess er krafist að stjórnvöld skipi þegar í stað starfshóp með fulltrúum bænda þar sem mat verði lagt á hvernig einstaka búgreinar geti tekist á við afleiðingar samningsins, og sérstaklega verði horft til svína- og alifuglaræktar, enda sé tekjutapið gríðarlegt í þeim greinum.

Búnaðarþing lagði líka til að stofnsettur yrði starfshópur til að meta kostnað og áhrif sem nýjar aðbúnaðarreglugerðir hafa fyrir landbúnaðinn og að horft yrði til þess sem tíðkast í nágrannalöndum þar sem stuðningur fylgir hertum kröfum. Svo fara þeir fram á faglega úttekt á þessum atriðum og biðja um að tollasamningurinn verði ekki fullgiltur fyrr en starfshópurinn hafi skilað niðurstöðum og gripið hafi verið til nauðsynlegra mótvægisaðgerða af hálfu stjórnvalda.

Þetta er sem sagt afstaða Bændasamtakanna sem eru augljóslega ekki ýkja hrifin. Í samhengi málsins, í ljósi þess sem um er að vera í sambandi við búvörusamningana og alla ólguna kringum þá, er kannski ástæða til að leggja við eyru þegar svona mikil óeining er uppi.

Þá hefur líka verið bent á að með auknum innflutningi er verið að stuðla að stórfelldum flutningi á matvælum þegar hægt væri að framleiða hér meira kjöt. Það er sjónarmið að innflutningur á kjöti er neikvæður frá umhverfislegu sjónarmiði og má með rökum segja að vænlegra sé að stuðla að því að framleiða matvæli í nærumhverfinu með heilnæmum og umhverfisvænum aðferðum.

Þetta eru þau sjónarmið sem mér finnst að helst þurfi að hafa til hliðsjónar þegar tekin er afstaða til þessa máls, sjónarmið sem þarf að reisa í hvert skipti sem við ræðum tollvernd og tollastefnu í sambandi við innflutning á landbúnaðarafurðum. Því eins og hér hefur komið fram skipta neytendasjónarmiðin máli en neytendasjónarmið felast í fleiru en því að geta keypt ódýrari vöru. Neytendur vilja almennt geta treyst því að þeir séu að fá heilnæma vöru, vel framleidda, þar sem grundvallarsjónarmið um velferð dýra og umhverfislega þætti eru virt í framleiðslunni.

Þetta er það sem ég vildi koma á framfæri inn í þessa umræðu. Ég heyri að fleiri þingmenn hér slá á sömu strengi. Svo verður náttúrlega að koma í ljós hvort eitthvað er hlustað á þessi sjónarmið.