145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

tryggingagjald og samsköttun milli skattþrepa.

[13:38]
Horfa

forsætisráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að til stendur með þessu frumvarpi að lækka tryggingagjald, og m.a. til þess að fjármagna það, en kannski ekki sérstaklega með þeim peningum, þá var lagt til í frumvarpinu að falla frá hugmyndum sem upp komu í efnahags- og viðskiptanefnd á síðastliðnu ári um að taka upp fullan afslátt vegna samsköttunar hjóna.

Það kom mér á óvart þegar ég heyrði af því fyrir stuttu að þessi niðurstaða væri á leiðinni út úr nefndinni. Hún gerir það að verkum að við þurfum þá að fara yfir það hvernig tryggja eigi 3,5 milljarða í tekjur, hvort það eigi þá að gera með því að hækka skatthlutfall í efra hlutfalli til móts við það. Mismunandi sjónarmið voru uppi í nefndinni. Ég hef rætt það við einstaka nefndarmenn sem tala um að jafnræði hljótist af þessu, þetta snúi ekki eingöngu að þeim hópi sem hv. þingmaður nefndi til sögunnar. Það var tillaga ríkisstjórnarinnar til þess að að skapa hér tekjur og hamla gegn þenslu hjá þeim sem mest hafa. Það er gríðarleg kaupmáttaraukning í landinu og höfum við af þeim sökum haft ágæta samvisku til þess að fresta því að hafa jafnræði á milli þessara hópa, sem vissulega þarf að skoða, að það gildi þá líka um það. Þarna getur verið jaðarhópur sem situr uppi með mjög háa skattheimtu.

Ég tel að fara þurfi miklu betur yfir mál og þó að það verði afgreitt út núna með því að klára málið í því tilliti til þess að tryggingagjaldið lækki eins og til stendur verði fjallað um þetta mál betur í þinginu áður en komi til fjárlagasamþykktar hér í vetur. Rökin fyrir þessari breytingu (Forseti hringir.) eru ekki nægilega góð að mínu mati til þess að ég geti fallist á þau, ekki frekar en hv. þingmaður.