145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

tryggingagjald og samsköttun milli skattþrepa.

[13:41]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég skil mjög vel að rökin séu hæstv. forsætisráðherra ekki ljós því að þau eru ekki til. Jafnræðisrök? Ef einhver hefur nú verið að reyna að ljúga hann fullan með því að þau séu fyrir hendi þá vakna nú enn frekar spurningarnar um jafnræði t.d. gagnvart elli- og örorkulífeyrisþegum sem þessi ríkisstjórn er búin að samþykkja að eigi ekki að njóta jafnstöðu við almennt launafólk vegna hækkana sem urðu í upphafi þessa árs.

Ég ítreka: Hér eru peningar til að setja í greiðsluþátttökuna í heilbrigðiskerfinu til þess að skapa um það mál víðtækari samstöðu. Hér eru peningar sem hægt er að nota til að standa við gefin loforð ríkisstjórnarinnar um uppbyggingu húsnæðis fyrir tekjulægstu hópanna. Hér eru peningar sem hægt væri að nota, þess vegna, til að tryggja jafnstöðu ellilífeyrisþega og öryrkja.

Ég get ekki skilið að hæstv. forsætisráðherra ætli að láta þingmenn stjórnarmeirihlutans beygja ríkisstjórnina í þessu máli. Það er nú ekki þannig að stjórnarmeirihlutinn hafi meiri hluta á Alþingi án ráðherra ríkisstjórnarinnar.

Ég bendi því á að það er atkvæði hæstv. ráðherra sjálfs sem mun ráða því (Forseti hringir.) hvort flokkur hans og ríkisstjórnin mun standa í lappirnar eða ekki í þessum máli.